Select Page

Athugið að í þessum skrifum koma fram andsamfélagslegar hugmyndir um hverjir gefa börnum í skóinn.

Við foreldrarnir fórum að velta því fyrir okkur um daginn hvenær barnið okkar ætti að byrja að fá í skóinn. Núna veit það ekki hvað snjórinn sem það sá í fyrsta sinn í dag er, svo líklega kemur enginn jólasveinn hingað þessa aðventuna. Í þessum vangaveltum rifjaðist upp fyrir mér þegar við systkini fengum eitthvað miður skemmtilegt í skóna. Reyndar fengum við systkini aldrei neitt í skó. Við áttum forláta ameríska jólasokka sem héngu í forstofunni en ég sé núna hversu snjallt það var hjá foreldrum okkar sem losnuðu alveg við að klifra yfir okkur sofandi í rúmunum.

Verandi fimm árum eldri en bróðir minn græddi ég gjafir frá jólasveinunum örlítið lengur en ella, því ekki fara þeir bræður nú að mismuna börnum sökum aldurs. Ég man þess vegna mjög skýrt og greinilega eftir einu skiptinu (já, þau voru líklega fleiri en eitt) sem ég fékk kartöflu. Ætli ég haf ekki verið sex eða sjö ára. Ég er fyrir löngu búin að gleyma hvað það var sem ég gerði af mér daginn áður en augljóslega hef ég vitað upp á mig skömmina, því ég læddist fram á undan öðrum heimilismeðlimum til að fá þann grun minn staðfestan að í sokknum leyndist kartafla. Svo læddist ég aftur inn í herbergi. Morgunrútínan fór í gang og á milli þess sem ég klæddi mig, borðaði morgunmatinn og tók til skóladótið spurðu mamma og pabbi mig nokkrum sinnum að því hvort ég væri búin að kíkja í sokkinn og hvað ég hefði fengið. Ég var, aldrei þessu vant, pollróleg og áhugalaus yfir fengnum í sokknum: „Nei, ég ætla bara að kíkja á eftir.“ Mér lá síðan ósköpin öll á í skólann þennan morguninn og „hafði ekki tíma“ til að skoða hvað jólasveinninn hafði komið með handa mér. Þegar ég kom heim í hádegismat var ég ekki enn búin að telja í mig kjark til að takast á við þessa kartöflu. Það var ekki fyrr en rétt áður en ég rauk aftur í skólann sem ég veiddi hana upp úr sokknum í forstofunni og henti henni í ruslatunnuna á leiðinni í skólann. Best að eyða öllum sönnunargögnum um þessa óþægð.

Örfáum árum síðar tókst litli bróðir minn síðan á við það áfall að fá kartöflu í skóinn. Hann gerði það á allt annan og talsvert betri hátt en ég. Það er auðvitað vitað mál að annað barn hjóna er aldrei eins vel uppalið og það fyrsta, svo kannski var hann bara svo oft óþægur sem barn og því undir það búinn að fá kartöflu. Kannski hafði ekki tekist að koma honum alveg í skilning um hvað kartaflan táknaði. Kannski hafði hann bara náð fullkomnu hugarástandi hinnar óþolandi jákvæðu Pollýönnu. Ég skal ekki segja. Hann tók þessari sendingu sveinka allavega með stóískri ró og geymdi kartöfluna. Nokkrum dögum síðar, þegar hann var kominn í sparifötin og lakkskóna, stakk hann kartöflunni í vasann. Á jólaballinu hafði hann lítinn áhuga á mandarínum og jólasöngvum. Hann vildi bara ná tali af þessum Gáttaþef. Hann þurfti nefnilega að skila honum kartöflu.