Select Page

Prjón Prjón

Þegar handóður 10 mánaða gamall gríslingur er á heimilinu er vissara að fjarlægja þá hluti sem eru í seilingarfjarlægð og manni þykir vænt um. Aðra hluti er allt í lagi að láta vera og freista þess jafnvel að nota þá til að kenna umræddum gríslingi að skemma ekki allt sem á vegi hans verður. Ein af þeim bókum sem enn er ekki búið að forða er þessi hér og einhverra hluta vegna dregur krakkinn hana alltaf út úr allri hillunni, alveg sama hvar henni er stungið.Ég lá yfir þessari bók nokkur kvöld fyrir tveimur árum en hef ekki opnað hana síðan. Innihaldið er afar gott en ég er búin að læra það utanbókar og hef því ekki miklar taugar til hennar. Þessi bók kennir þá dásamlegu aðferð að prjóna tvo sokka samtímis, á einn og sama prjóninn. Já, ég veit. Byltingarkennd og kynngimögnuð prjónahugmynd. Ég hef ekki snert sokkaprjóna síðan ég lærði þessa aðferð og býst við að kassinn með þeim muni rykfalla um ófyrirséða framtíð.

Augljósir kostir þessarar aðferðar eru a.m.k. eftirfarandi (og athugið að þetta er ekki tæmandi listi):

  • Engir sokkaprjónar: Ekkert glamur, engin auka samskeyti, minni hætta á að missa niður lykkjur og búa til eina risastóra flækju með því að stinga öllu draslinu ofan í tösku. Færri oddar líka og því minni möguleikar á að slasa sig (og aðra).
  • Tvö nákvæmlega eins stykki: Af því bæði stykkin eru prjónuð samtímis er engin hætta á að þau verði ólík. Þetta er sérstaklega mikill kostur þegar uppskriftin er skálduð um leið og stykkið er prjónað.
  • Betri geðheilsa: Það er herfilega niðurdrepandi að klára að prjóna einn sokk og þurfa svo að byrja á öðrum sem er nákvæmlega eins – svipuð tilfinning og að vera ekki búin að vista skólaverkefnið þegar tölvan tekur upp á því að frjósa. Reyndar hentar þessi aðferð ekki síður þegar prjónaðar eru ermar, skálmar eða vettlingar.
  • Meira múltítask: Ef ekki er verið að prjóna þeim mun flóknara munstur verður þessi aðferð til þess að það er miklu auðveldara að fylgjast stíft með lélegu sjónvarpsefni á meðan prjónað er.

Sem sagt, þið sem prjónið: Eyðið einu (eða mögulega tveimur) kvöldum í að læra þetta. Það verður ekki aftur snúið. Þið þurfið samt ekkert að kaupa bókina frekar en þið viljið því það er fólk út um allt internetið að kenna þetta, t.d. á YouTube.