Select Page

Í gær sat ég hjá við atkvæðagreiðslu í bæjarstjórn. Það gerist ekki oft. Ég gat bara ekki samþykkt bókunina sem var borin upp, nýkomin úr berjamó í Norðfirði.

Sko.

 


 

Árið sem Andri Snær skrifaði Draumalandið var ég að læra fjölmiðlafræði í Háskóla Íslands. Eitt af því fyrsta sem við lærðum var að flestir hafa ríka tilhneigingu til að lesa að mestu skrif sem endurspegla eigin skoðanir. Ég man að mér fannst þetta stórundarlegt. Hvernig átti einhver að geta myndað sér skoðun og haldið áfram að vera þeirra skoðunar, ef hann ætlaði aldrei að lesa neitt nema það sem hann var sammála? Þannig að ég keypti og las Draumalandið. Þar var auðvitað að finna fullt af mjög þörfum og réttmætum ábendingum og bókin vakti mig til umhugsunar um ýmislegt – sumt hugsa ég ennþá um reglulega. Eftir lesturinn var ég engu að síður enn ósammála Andra Snæ um hvort álver í Reyðarfirði ætti rétt á sér eða ekki. Reyndar var ég svo ósammála honum um ákveðin atriði að ég stóð upp í pökkuðum sal í háskólanum og skiptist á skoðunum við hann í góða stund.

Ég var sem sagt aldrei neitt vafaatkvæði þegar kom að spurningunni um álver eða ekki álver í Reyðarfirði.

 


 

Hér í Reyðarfirði hefur styrkur flúors í grasi mælst um eða yfir viðmiðunarmörkum þrjú sumur í röð. Álver Alcoa losar of mikið flúor og það sem er enn verra, þar á bæ vita menn ekki hvernig flúorið sleppur út og þ.a.l. ekki hvernig á að bregðast við. Eftir því sem fulltrúar Alcoa segja okkur hafa þeir ekki setið auðum höndum, heldur ráðist í allskyns tilraunir og endurbætur, kallað til erlendan sérfræðing og fleira. Niðurstaðan er eftir sem áður sú sama: Ekki er vitað hvernig á að leysa vandamálið.

Fyrir rúmri viku fundaði eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd Fjarðabyggðar. Ég sit í nefndinni en var ekki heima og gat því ekki setið fundinn. Af því að ég hafði áður óskað eftir að fulltrúar þeirra eftirlitsstofnana sem hafa með málið að gera kæmu á fundinn, fékk ég að vera í síma undir þeim lið, bæði til að hlusta á hvað fulltrúarnir hefðu að segja og spyrja þá spurninga. Að því loknu lauk þátttöku minni á fundinum og ég verð að viðurkenna að ég varð fyrir ákveðnum vonbrigðum þegar ég sá bókun nefndarinnar um málið daginn eftir.

Í gær hittist bæjarstjórn eftir sumarfrí og þar var bókun nefndarinnar borin upp. Við hana bætti bæjarstjórn síðan nokkrum orðum. Þar eru löngu tímabærir og jákvæðir punktar, s.s. um að sett verði upp upplýsingatorg á vefsíðu Fjarðabyggðar um málið og að haldinn verði kynningarfundur í byrjun september með fulltrúum eftirlitsaðila. Þetta er auðvitað fagnaðarefni en á nokkrum stöðum finnst mér of lítið gert úr því að hér í Reyðarfirði sé mengunin meiri en áætlað var. Mér finnst t.d. furðulegt að nota orðalag eins og „að nauðsynjalausu” um áhyggjur íbúa af heilsufarslegu öryggi. Auðvitað eiga íbúar að hafa áhyggjur og þær eru ekki að nauðsynjalausu. Við búum hér við meiri mengun en okkur var lofað og þessi mengun hefur áhrif.

Sérfræðingar Umhverfisstofnunar (UST) og Matvælastofnunar (MAST) segja okkur að flúormengunin eigi ekki að vera hættuleg heilsu manna. Þetta eru menntaðir sérfræðingar sem við höfum auðvitað enga ástæðu til að rengja. Á sama tíma segja þeir okkur samt að það sé vissara að skola berin sem við tínum í fjallinu og rabarbarann sem við slítum upp úr garðinum. Það er ekki nema von að fólk hafi áhyggjur og finnist þetta stangast dálítið á.

En eru þær fullyrðingar að flúormengunin sé ekki hættuleg fólki það eina sem skiptir okkur máli? Er eftirsóknarvert að kaupa sér hús og setjast að á stað þar sem megun er meiri en hún ætti að vera? Getur fólk verið fullkomlega ánægt með umhverfi sitt? Hvaða áhrif hefur mengunin á ímynd Reyðarfjarðar og Fjarðabyggðar?

Ef áfram heldur sem horfir er full ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af grasbítum hér í Reyðarfirði, því síðustu mælingar flúors í beinum þeirra voru rétt undir hættumörkum. Á nefndarfundinum spurði ég fulltrúa UST og MAST um hverjar afleiðingarnar yrðu ef flúor safnaðist áfram upp í beinum dýranna sem bíta grasið í firðinum. Svörin voru þau að breyta þyrfti landnotkun í Reyðarfirði, þ.e. hér gætu menn ekki stundað búskap lengur því menn mættu einfaldlega ekki halda dýr sem vitað væri að lifðu við þessar aðstæður. Yrði það ásættanlegt?

Okkur er reglulega sagt að Alcoa Fjarðaál sé eitt fullkomnasta og tæknilegasta álver í heimi. Fyrirtækið eyðir líka (a.m.k.) tugum milljóna í samfélagsstyrki á ári hverju, almannatengsl, auglýsingar og aðra ímyndavinnu. Það hlýtur því hreinlega að hafa fjármagn og úrræði til að finna út úr þessu.

 


 

Ég er enn sömu skoðunar og ég var árið sem Draumalandið var skrifað.

Heilt yfir held ég að það hafi verið rétt ákvörðun að reisa álver í Reyðarfirði. Álvinnsla er ekki gallalaus iðnaður frekar en nokkur annar og Alcoa Fjarðaál ekki fullkominn vinnustaður heldur, en kostirnir eru bæði miklir og margvíslegir. Það breytir því ekki að við verðum að gera þær sjálfsögðu kröfur til Alcoa, rétt eins og allra annarra fyrirtækja í sveitarfélaginu, að það hafi sem allra minnst skaðleg áhrif á umhverfi, dýr og menn. Af þeim kröfum mál aldrei slá.

Ég treysti því líka að berin í Reyðarfirði séu mér ekki skaðleg. Samt er mér sagt að skola þau helst og þá hef ég bara ekki alveg eins góða lyst á þeim. Viljum við ekki örugglega að fólk hafi lyst á Reyðarfirði áfram?