Select Page

Mér finnst gaman að taka myndir og hef alltaf gert frekar mikið af því, alveg frá því að mamma og pabbi gáfu mér litla myndavél fyrir fyrstu utanlandsferðina. Ég var meira að segja mjög dugleg við að láta framkalla, raða í albúm og skrifa samviskusamlega við myndirnar. Svo komu stafrænu myndavélarnar. Þá liðu mörg ár án þess að ég prentaði meira en stöku mynd og yfirleitt á lélegan pappír. Þessar örfáu myndir fóru ekki í neitt albúm og einhverra hluta vegna voru þær ekki skoðaðar nærri eins oft í tölvunni. Fyrir fimm árum tapaði ég síðan nokkrum myndum, sem betur fer ekki mörgum mánuðum eða árum, en nógu miklu til að fá kvíðakast. Hvað ef þetta hefði verið allt myndasafnið mitt? Nú yrði ég að hunskast til að koma þessum myndum eitthvað lengra en á harðan disk.

Ég fór að skoða hvaða möguleikar væru í boði og fann lausn sem mér fannst hafa afar marga kosti: Ég lét prenta bók – árbók fyrir okkur í fjölskyldunni.

Gömlu, góðu myndaalbúmin höfðu þann ókost að þar var öllum myndum gert jafnhátt undir höfði; þær voru allar jafnstórar og textasvæðið sem fylgdi þeim líka. Þetta er vonlaust fyrirkomulag því sumar myndir vill maður eiga stórar og láta langan texta fylgja þeim en aðrar mega vera litlar og við þær þarf ekki að skrifa neitt. Í bókinni eru myndirnar allar prentaðar beint á pappírinn en ekki faldar á bakvið plast. Stundum heldur maður líka upp á einhverja hluti, t.d. úr ferðalögum, sem rúmast illa í hefðbundnu albúmi en þá má flesta skanna inn og setja í bókina. Sem sagt, bókin opnar á allskyns möguleika sem albúmið gerir ekki.

Árið 2009 bjó ég fyrstu bókina til hjá fyrirtækinu Blurb. Ástæðan fyrir því að ég valdi Blurb var einfaldlega sú að á þessum tíma kunni ég ekkert fyrir mér í umbroti og þeir buðu upp á afar einfalt og notendavænt forrit til að búa bókina til. Ég sé að þeir bjóða enn upp á forritið og hafa auðvitað bætt það síðan ég notaði það síðast. Þetta er forrit sem allir geta notað og nákvæmlega engin reynsla af svona dútli er nauðsynleg. Fyrir þá sem hafa hins vegar einhverja reynslu bjóða þeir upp á að maður hanni bókina algjörlega frá grunni og sendi þeim hana tilbúna.

Nú er ég ekki á neinum prósentum hjá Blurb. Mig langar bara einlæglega að mæla með þeim. Prentun og frágangur stendur alltaf undir væntingum og í þetta eina skipti sem ég lenti í veseni (þegar bókin skemmdist í flutningi) fékk ég framúrskarandi þjónustu. Frá því ég byrjaði að setja saman bækur fyrir okkur á heimilinu hafa nokkur íslensk fyrirtæki farið að bjóða upp á þessa þjónustu. Ég hef ekki skipt við þau, svo ég hef ekki samanburðinn, en verðið hjá Blurb hefur hingað til verið talsvert betra. Og talandi um verð, þá bjóða þeir upp á $20 afslátt fyrir þau ykkar sem hafa áhuga á að láta prenta bók hjá þeim:
Fá afsláttinn.