Select Page

Ég reyni eins og ég get að vera dugleg við að taka myndir. Einhvern veginn tekur maður aldrei of mikið af myndum. Að sjálfsögðu er enn mikilvægara að taka reglulega myndir þegar barnið er komið í spilið því það breystist svo ógnarhratt. Þótt mér finnist uppstillt smábörn ekki nærri eins skemmtilegt myndefni og smábörn að vera smábörn, þá reyni ég annað slagið að drífa Iðunni Elísu í sæmilega birtu og grípa eitthvað annað og betra en símann til að mynda. Niðurstaðan er alltaf sú sama: Misheppnuðu myndirnar eru lang skemmtilegastar.

Þegar Iðunn Elísa var þriggja mánaða tókum við myndir af höndunum og fótunum á henni. Já, einmitt. Bæði klisjukennt og væmið. En í miðri myndatöku, þegar henni fannst þetta nú hreint ekkert sérstaklega skemmtilegt og pabbi hennar var að reyna að geðjast henni með að stinga upp í hana snuði, smellti ég mynd af þeim báðum. Þetta var vissulega ekki tilgangur myndatökunnar en úr varð uppáhalds myndin mín af þeim feðginum.

Mánuði seinna var Iðunn Elísa síðan komin í gamlan kjól af frænku sinni svo mér fannst upplagt að ná mynd af henni til að senda frænkunni. Módelið var til fyrirmyndar og ég náði strax þessari ósköp sætu mynd af lítilli stelpu í kjól. Myndirnar sem ég náði nokkrum sekúndum síðar voru hins vegar miklu skemmtilegri. Ég er ennþá með aðra þeirra sem skjámynd á tölvunni minni.