Select Page

10376992_10152876163069606_5295756168561239805_nSumarið sem ég var tíu ára áttu körfaboltamyndir hug og hjörtu flestra á mínum aldri. Það komst lítið annað að. Einn daginn, á miðju sumri, komst nákvæmlega ekkert annað að í mínum huga og ég asnaðist til að stela peningum. Ég stal fimmhundruðkalli frá mömmu og pabba og minnir að hann hafi dugað fyrir tveimur pökkum af körfuboltamyndum.

Um kvöldið komst þessi verknaður upp. Ég man ennþá tilfinninguna þegar var lesið yfir hausamótunum á mér, mappan með öllum körfuboltamyndunum gerð upptæk og ég send inn í herbergi með þeim skilaboðum að möppuna sæi ég aldrei aftur. Ég man líka vel að hafa rölt út í bæ daginn eftir og skáldað upp skýringar á því hvers vegna ég var ekki með möppuna með mér, eins og allir hinir. Þóttist vera vaxin upp úr þessum barnalegu körfuboltamyndum. Gott ef ég reyndi ekki líka að telja krökkunum trú um að það væri enginn að safna þeim lengur í Reykjavík. Skömmina vissi ég auðvitað strax upp á mig en það var ekki fyrr en talsvert löngu síðar sem ég fór að kunna foreldrum mínum bestu þakkir fyrir þessa lexíu. Ég stal aldrei peningum aftur, svo mikið er víst.

Nú, jæja. Ég velti fyrir mér hvort ég ætti að dást að staðfestunni hjá foreldrum mínum eða líta á það sem heilan saltstauk í sárin, þegar faðir minn afhenti mér möppuna aftur í gær, aðeins tuttugu árum síðar.

P.S. Vill einhver bítta á nokkrum myndum? Á margar af Jordan og líka nokkrar þrívíddarmyndir.