Select Page

Svo því sé strax svarað sem einhverjir eru sjálfsagt að velta fyrir sér, þá hef ég hugsað mér að skoða það sem kemur frá SSA á meðan ég er sitjandi bæjarfulltrúi á Austurlandi. Einhver verður að gera það, er það ekki?

Apríl er bara rétt að byrja og forsvarsmenn SSA hafa, í annað skiptið það sem af er ári, komið mér hressilega á óvart og það ekkert sérstaklega skemmtilega. Reyndar er nú orðinn rúmur mánuður síðan mér var bent á það sem hér er til umfjöllunar og þrátt fyrir að hafa lesið þetta margoft, hugsað töluvert um þetta og ætlað að skrifa um í nokkrar vikur, þá hef ég komið mér í það fyrr en núna, vegna þess að – ótrúlegt en satt – ég vissi ekki hvað er eiginlega hægt að segja um þetta allt saman.

Þann 25. febrúar sendi framkvæmdastjóri SSA, Björn Hafþór Guðmundsson, inn umsögn fyrir hönd stjórnar SSA um þingsályktunartillögu Árna Johnsen. Gögnin eru fljótlesin og aðgengileg á netinu. Þegar ég las þau fyrst var ég var svo hissa á málinu, sama á hvernig ég horfði á það, að ég gat hreinlega ekki komið því í orð. Staðan hefur nánast ekkert breyst og því vil ég biðja þau ykkar sem þetta lesa að gera eins og ég, þ.e. rembast við að svara þessum spurningum:

1) Er gott og eðlilegt að framkvæmdastjóri SSA skrifi „spontant“ umsögn (eins og hann orðar það sjálfur) um þingmál?

2) Er gott og eðlilegt að framkvæmdastjóri SSA semji umsögnina í nafni stjórnar SSA án þess að leita eftir samþykki stjórnarmanna?

3) Er gott og eðlilegt að framkvæmdastjóri SSA sendi stjórnamönnum umsögnina eftir að hún hefur verið send þinginu?

4) Er gott og eðlilegt að framkvæmdastjóri SSA telji ýmist stutt viðbrögð stjórnarmanna í tölvupósti eða alls engin viðbrögð (eftir að umsögnin hafði borist þinginu) fullnægjandi umræða þegar skrifað er í nafni stjórnar SSA?

5) Er gott og eðlilegt að framkvæmdastjóri SSA semji, einn síns liðs, umsögn um mál sem engin umræða hefur farið fram um í bæjarstjórnum eða fjölmiðlum á Austurlandi?

6) Hefði framkvæmdastjóri SSA ekki getað hinkrað í heila þrjá daga með að senda umsögnina inn til þingsins (en þá hefðu enn verið tvær vikur í að fresturinn rynni út) og þannig náð að bera hana undir stjórnarfund SSA?

7) Er gott og eðlilegt að umsögnin komi hvergi fram í fundargerðum stjórnar SSA?

Um umsögnina sjálfa; innihald hennar, efnistök og stílbrögð má svo segja óskaplega margt. En það er efni í önnur og miklu, miklu lengri skrif.

Svör óskast.