Select Page

Ég vel að búa úti á landi. Það er ekki sjálfgefið að velja landsbyggðina, því þar er ekki alltaf einfaldast að búa, en að teknu tilliti til bæði kosta og galla höfuðborgarsvæðisins annars vegar og landsbyggðarinnar hins vegar, vel ég landsbyggðina. Ekki spurning.

Þegar maður býr á landsbyggðinni neyðist maður stundum til að fara til Reykjavíkur, eða bara suður – eins og við segjum hérna fyrir austan. Einn af ókostunum við höfuðborgarsvæðið, og sá sem ég læt líklega fara mest í taugarnar á mér af öllum, er umferðin. Maður þarf ekki að ferðast mikið eða lengi um heiminn til að komast að því hversu óskaplega tillitslausir og frekir bílstjórar í ekki stærri borg en Reykjavík eru. Í Delhi á Indlandi, þar sem ógrynni bíla, mótorhjóla, búfénaðar og reiðhjóla mætast á óupplýstum krossgötum, gengur allt smurt. Allir fara gætilega, taka tillit til annarra, gefa séns og komast leiðar sinnar. Engin vandræði. Í útjarðri Reykjavíkur má hins vegar ekki blikka gult ljós á fáförnum gatnamótum án þess að bílstjórarnir sem að þeim koma fórni höndum og byrji að svitna á efri vörinni.

Ég keyri mikið um nágrannasveitir mínar og kem reglulega að einbreiðum brúm. Margar hverjar eru sæmilegar – eða eins sæmilegar og einbreiðar brýr verða – en aðrar með ýmsum skemmtilegum viðbótarhættum, t.d. blindhæð eða krappri beygju á undan og/eða á eftir. Þar þarf því að fara gætilega. Og það gerir fólk. Það hægir vel ferðina, gætir þess að enginn sé að koma á móti (svo langt sem það sér), fer út í kant og bíður, ef þarf. Ekki er nóg með að fólk sýni náunganum tillitssemi, heldur vinkar sá sem keyrir fyrstur yfir brúna þeim sem bíður úti í kanti nánast undantekningalaust, þakkar fyrir aðgátina. Þetta er dálítið vinalegt og sjarmerandi og þegar einhver stofnar lífi mínu í hættu að óþörfu á Miklubrautinni með því að svína fyrir mig í hálku, þá hugsa ég um vinkandi bílstjóra við einbreiða brú og anda djúpt.

– – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – –

Maðurinn minn er dagskrárgerðarmaður og á sunnudögum í júlí og ágúst hafa hljómað þættir eftir hann á Rás 1 um byggðarkjarnanna sex í Fjarðabyggð. Í þættinum um Norðfjörð talaði hann m.a. við Ingibjörgu Þórðardóttur, kennara og Norðfirðing í húð og hár. Nú er ég stundum alveg hjartanlega sammála Ingibjörgu um ýmis málefni en þegar hún byrjaði að tala um samgöngur til Norðfjarðar var ég sannfærð um að ég hefði misskilið hana hrapallega. Sagði hún í alvörunni að hún hefði „aldrei litið á erfiðar samgöngur sem neikvæðar“ og væri „ekkert sérstök áhugamanneskja um göng“? Bíddu, býr hún ekki á Norðfirði? Jú, jú. Hún sagði að sér þætti Oddsskarðið „ekkert mál“ og þætti bara „æðislega gaman að keyra yfir Oddsskarð“.

Ég var svo standandi bit á þessum ummælum að ég fór inn á ruv.is, hlustaði aftur á það sem hún sagði og skrifaði niður, því samgöngur finnst mér einn aðalókosturinn við að búa á landsbyggðinni. En áfram hélt Ingibjörg:

Þrátt fyrir að nútímakröfur segi að þetta eigi allt að snúast um þetta, þá held ég að við verðum kannski að hafa svolítið hugfast að það gæti verið að við töpuðum einhverju líka eftir því sem samgöngur verða betri. Við vinnum ekkert bara. Auðvitað vinnum helling. Við vinnum helling fyrir skólann okkar, við vinnum helling fyrir sjúkrahúsið okkar og allt það. En við getum líka tapað einhverju.

Við þetta er gott að staldra og velta fyrir sér inntakinu. Nú er það svo að margir hér í sveitarfélaginu og nágrenni þess hafa á því miklar skoðanir að tvær lykilstofnanir fjórðungsins séu staðsettar á Norðfirði, einmitt vegna þess að þangað er ótrygg leið. Þetta eru Verkmenntaskóli Austurlands (sá eini sinnar tegundar í fjórðungnum) og Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað. „Skólinn okkar“ og „sjúkrahúsið okkar“ sem Ingibjörg talar um, er nefnilega ekki bara skóli Norðfirðinga eða sjúkrahús Norðfirðinga, heldur eru þetta stofnanir Austfirðinga allra. Þeir sem eiga heima á Djúpavogi, Vopnafirði og Jökuldal eiga jafnmikið tilkall til skólans og sjúkrahússins og Norðfirðingar. Bara svo það sé á hreinu. Til þess að Austfirðingar allir geti nýtt sér þessar stofnanir meira og betur en þeir gera núna, þurfa að vera þangað betri samgöngur. Það er kristaltært. Það mun svo örugglega fylgja með í mikilvægan bónus, þegar samgöngurnar verða orðnar betri, að meiri sátt mun skapast um staðsetningu þessara stofnana. Það skiptir líka máli, ekki síst fyrir Norðfirðinga.

Það er ekki bara það að við vinnum og vinnum við það að samgöngur batni. Við kannski bara töpum líka. Fólk sækir vinnu meira kannski annars staðar. Er það endilega það sem við viljum? Viljum við endilega að Norðfirðingar vinni meira og minna allir á Reyðarfirði? Ég vil það ekki. Ég vil helst að Norðfirðingar vinni bara á Norðfirði.“

Ég vil helst að fólk fái bara að velja, eins mikið og það mögulega getur, hvar það vinnur, Ingibjörg. Ef við ætlum halda okkur fast við þá skoðun að fólk eigi bara að vinna þar sem það býr, þá væri ástæðulaust að eyða stórfé í stórar stofnbrautir á milli hverfa á höfuðborgarsvæðinu, því þú ætlast þá líka væntanlega til þess að þeir sem búa í Grafarvoginum vinni í Grafarvoginum. Gildir þá einu hvort þar er að finna starf þar sem menntun og reynsla viðkomandi nýtist eða ekki.

Spurð um framtíðarsýn sína fyrir Norðfjörð, segir Ingibjörg: „Ég vil bara auðvitað sjá að hér sé áfram líf og hér sé fólk helst af öllum kynslóðum.

Nú hélt ég að það væru engin ný vísindi að eitt þeirra atriða sem margt fólk raðar ofarlega á óskalistann sinn, áður en það tekur ákvörðun um búsetu, er samgöngur. Til þess að Norðfjörður endurheimti Norðfirðingana sína að loknu námi og laði til sín nýja íbúa, þá þarf að vera hægt að komast þangað svo vel sé. Annars kemur ekki til með að vera fólk af öllum kynslóðum á Norðfirði. En um ný göng hefur Ingibjörg reyndar meira að segja:

Það er ekki bara það að það verði auðveldara að koma hingað, það verður líka auðveldara að fara héðan.

Er þetta nú ekki feikileg og ástæðulaus paranoja? Er virkilega svo slæmt að búa á Norðfirði, að um leið og þaðan verði greiðfært, sjái allir íbúarnir hversu grænt grasið er raunverulega hinum megin og pakki saman? Bíður fólk á Norðfirði kannski nú þegar í röðum með búslóðirnar sínar við væntanlegan gangamunann í Fannardalnum?

Nú, þetta var fyrir tveimur vikum. Ég byrjaði sumsé að skrifa um samgöngur til Norðfjarðar þá en kom mér einhverra hluta vegna ekki til að klára. Síðan þá hefur ýmislegt gerst.

Allt sat fast í Oddsskarðsgöngum þegar gestir Neistaflugs ætluðu heim að lokinni dagskrá.
Það er kannski þetta sem Ingibjörg á við með því að það verði auðveldara að fara frá Norðfirði þegar ný göng verða komin? En það er víst ekki gott. Á mögulega að læsa alla inni sem álpast á Neistaflug?

Íbúar efndu til samstöðufundar við göngin í gærkvöldi.

Af báðum þessum atburðum voru fluttar fréttir, eins og sjá má hér að ofan, og það í fleiri miðlum en RÚV. Í framhaldi af þessari umfjöllun skrifaði Ingibjörg þetta á vegg sinn á Facebook í dag:

Norðfirðingar eru ekkert að hvetja fólk til heimsækja fjörðinn okkar. Efast um að nokkur þori að láta sjá sig hér. Eins gott að þessi áróður gegn firðinum hófst eftir Eistnaflug og Neistaflug.

Þá gekk endanlega fram af mér og ég opnaði óklárað skjal í tölvunni um samgöngur til Norðfjarðar. Mér er algjörlega fyrirmunað að skilja hvernig hægt er að túlka það áróður gegn Norðfirði, að Norðfirðingar sjálfir og sveitungar þeirra, bendi enn einu sinni á þá augljósu staðreynd að til Norðfjarðar liggur erfiður, torfarinn og oft á tíðum hættulegur fjallvegur, sem ríkið á að sjá sóma sinn í að bæta (þótt fyrr hefði verið).

Ég heyri sveitarstjórnarmenn og íbúa á Austurlandi reglulega kvarta undan því að fjölmiðlar sinni þeim ekki nógu vel. Það er mikið til í því og í raun efni í önnur og lengri skrif. Það sem af er ári hafa Oddsskarðsgöng fengið töluvert meiri umfjöllun en ég man eftir áður, stundum að frumkvæði íbúa eða vegfarenda og stundum að frumkvæði pólitíkusa. Sama hvaðan gott kemur, umfjöllunin er þörf og það veitir ekkert af því að minna á þetta litla, ljóta gat ef eitthvað á að þokast í baráttunni fyrir stærra og betra gati yfir á Norðfjörð. Samgöngur til Norðfjarðar eru nefnilega ekki einkamál Norðfirðinga, eins og mér heyrist Ingibjörg halda. Að leiðin yfir á Norðfjörð sé greið skiptir sveitarfélagið Fjarðabyggð máli, nágranna sveitarfélögin, Austfirðinga alla, ferðamenn og gesti – hvaðan sem þeir koma og svo þeir komist heim aftur.

– – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – –

Aftur að einbreiðu brúnum úti á landi.

Mér varð hugsað til þess, þar sem ég stöðvaði bílinn við annan enda einbreiðu brúarinnar í botni Reyðarfjarðar í síðustu viku, hvaðan hugmyndir og skoðanir eins og þær sem vitnað er til hér að ofan eru eiginlega komnar. Því er ekki að neita, að það er vinalegt og svolítið fallegt að sjá hversu mikið fólk tekur tillit til náungans í nágrenni brúa sem þessarar – og kannski mun ég tala um það með rómantískri fortíðarþrá eftir einhverja áratugi þegar þær verða horfnar – en tillitssemin er líka það eina góða við einbreiðar brýr. Þær eru úreltar og hættulegar. Það eru Oddsskarðsgöng líka.