Select Page

Sveitarfélagið Fjarðabyggð í núverandi mynd er ekki nema tæplega 7 ára gamalt og þótt formlegheitunum við sameininguna sé lokið er mikið verk óunnið við að raunverulega sameina íbúana. Á tyllidögum tala bæjarfulltrúar um mikilvægi þessarar vinnu, slá um sig með frösum eins og þörfinni fyrir að „skapa félagslega heild“ og „ljúka hinu eiginlega sameiningarferli“. Það skýtur því óneitanlega skökku við að horfa upp á þessa sömu bæjarfulltrúa samþykkja að mismuna íbúunum vísvitandi eftir því hvar í Fjarðabyggð þeir búa.

Í vikunni sem leið samþykkti meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks nýja gjaldskrá fyrir almenningssamgöngur í Fjarðabyggð, þrátt fyrir kröftug mótmæli okkar bæjarfulltrúa Fjarðalistans. Hingað til hafa allir íbúar sveitarfélagsins greitt sama gjaldið fyrir að nota strætó innan Fjarðabyggðar, óháð því hvaðan þeir koma og hvert þeir eru að fara. Með nýju gjaldskránni er þessi jöfnuður hins vegar liðin tíð og sveitarfélaginu skipt upp í gjaldsvæði sem hvert um sig er 15 km langt. Stysta leiðin innan Fjarðabyggðar er einmitt 15 km en sú lengsta 85 km og því kemur það til með að kosta Stöðfirðinginn sexfalt meira að skreppa á Norðfjörð en Eskfirðinginn að skjótast á Reyðarfjörð – sexfalt meira, en allir borga þeir þó sama útsvar til sveitarfélagsins.

Íbúum Fjarðabyggðar var á sínum tíma seld sameiningarhugmyndin m.a. með þeim rökum að mikil hagræðing hlytist af, atvinnutækifærum fjölgaði og þjónustustig yrði hærra,  íbúunum öllum til góða.  Á undanförnum áratug hefur helsta atvinnu- og þjónustusvæði Fjarðabyggðar byggst upp í miðju sveitarfélagsins, á Reyðarfirði og í kringum álverið. Um þessa þróun er hæpið að ætla að skapist sátt ef sveitarfélagið ætlar svo að rukka íbúa jaðarins meira fyrir að sækja vinnu eða þjónustu inn að miðju.

Á sama tíma og fulltrúar meirihlutans samþykkja að mismuna íbúum sínum á þennan hátt kvabba þeir í ríkisvaldinu og krefja þingmenn um svör við því hvers vegna íbúar landsbyggðarinnar njóti ekki  réttinda og þjónustu til jafns við höfuðborgarsvæðið. Þeir nota ekki þau fáu tækifæri sem þeir fá sjálfir til að setja slík fordæmi.

Þetta jafnréttismál höfum við sem sagt tekist á um undanfarnar vikur, meiri- og minnihluti í Fjarðabyggð. Við í Fjarðalistanum höfum bókað þá afstöðu okkar í öllum nefndum og ráðum bæjarins að íbúarnir eigi allir að sitja við sama borð þegar kemur að gjaldi í strætó og hvikum hvergi frá þeirri skoðun. Það er okkur illskiljanlegt að meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks vilji velta þessum kostnaði yfir á íbúana og mismuna þannig fólki í sameinuðu, fjölkjarna sveitarfélagi eftir því hvar það býr. Erum við annars ekki að reyna að telja fólki trú um að „það sé á góðum stað“ í Fjarðabyggð, eins og segir á heimsíðu sveitarfélagsins? Eða er góði staðurinn kannski bara í miðjunni?