Select Page
Tvær jólagjafahugmyndir – fyrir næstu jól

Tvær jólagjafahugmyndir – fyrir næstu jól

„Vantar ekkert. Á nóg af öllu. Langar ekki í neitt sérstakt.“

Hvað gefur maður svona fólki í jólagjöf? Ef þetta er sama fólkið og er að reyna að hemja sig að heimsækja barnabarnið/frænkuna ekki daglega og finnst aldrei nóg af myndum eða fréttum af henni, þá eru hér tvær hugmyndir – báðar heimatilbúnar.

Jólagjafir

Jólagjafir

Í bókina raðaði ég saman allskyns myndum frá fyrsta árinu hennar Iðunnar Elísu á einar 80 blaðsíður. Brotið er frekar lítið og skemmtilegt (18 x 18 cm) og bókin er prentuð hjá Blurb (sem ég þreytist ekki á að dásama).

Kúluna keypti ég í Ikea fyrir nokkrum árum. Ég notaði föndurlit frá Mörthu Stewart og strauk honum yfir hendina á Iðunni Elísu með svampi. Á hinni hliðinni eru síðan límstafir skornir sérstaklega út fyrir þetta verkefni en það er auðvitað hægt að kaupa allskyns límstafi í föndurbúðum.

Af augljósum ástæðum var ekki hægt að birta þessar myndir fyrir jól en kannski nýtast þær einhverjum sem hugmyndir fyrir næstu jólapakka. Þær slógu allavega í gegn hér.

Kökuskrímslið

Í dag er frumburðurinn eins árs. Heilt ár liðið frá því ég missti vatnið eins og í bíómyndunum og skömmu síðar kom Iðunn Elísa í heiminn á meðan „Hjálpum þeim“ hljómaði í útvarpinu. Viðeigandi.

Í tilefni dagsins rúttuðum við til í stofunni og bökuðum köku sem mátti skemma. Það er nú lágmark að fá að skemma eina köku þegar maður á afmæli í fyrsta sinn.

Tveir fyrir einn

Prjón Prjón

Þegar handóður 10 mánaða gamall gríslingur er á heimilinu er vissara að fjarlægja þá hluti sem eru í seilingarfjarlægð og manni þykir vænt um. Aðra hluti er allt í lagi að láta vera og freista þess jafnvel að nota þá til að kenna umræddum gríslingi að skemma ekki allt sem á vegi hans verður. Ein af þeim bókum sem enn er ekki búið að forða er þessi hér og einhverra hluta vegna dregur krakkinn hana alltaf út úr allri hillunni, alveg sama hvar henni er stungið.Ég lá yfir þessari bók nokkur kvöld fyrir tveimur árum en hef ekki opnað hana síðan. Innihaldið er afar gott en ég er búin að læra það utanbókar og hef því ekki miklar taugar til hennar. Þessi bók kennir þá dásamlegu aðferð að prjóna tvo sokka samtímis, á einn og sama prjóninn. Já, ég veit. Byltingarkennd og kynngimögnuð prjónahugmynd. Ég hef ekki snert sokkaprjóna síðan ég lærði þessa aðferð og býst við að kassinn með þeim muni rykfalla um ófyrirséða framtíð.

Augljósir kostir þessarar aðferðar eru a.m.k. eftirfarandi (og athugið að þetta er ekki tæmandi listi):

  • Engir sokkaprjónar: Ekkert glamur, engin auka samskeyti, minni hætta á að missa niður lykkjur og búa til eina risastóra flækju með því að stinga öllu draslinu ofan í tösku. Færri oddar líka og því minni möguleikar á að slasa sig (og aðra).
  • Tvö nákvæmlega eins stykki: Af því bæði stykkin eru prjónuð samtímis er engin hætta á að þau verði ólík. Þetta er sérstaklega mikill kostur þegar uppskriftin er skálduð um leið og stykkið er prjónað.
  • Betri geðheilsa: Það er herfilega niðurdrepandi að klára að prjóna einn sokk og þurfa svo að byrja á öðrum sem er nákvæmlega eins – svipuð tilfinning og að vera ekki búin að vista skólaverkefnið þegar tölvan tekur upp á því að frjósa. Reyndar hentar þessi aðferð ekki síður þegar prjónaðar eru ermar, skálmar eða vettlingar.
  • Meira múltítask: Ef ekki er verið að prjóna þeim mun flóknara munstur verður þessi aðferð til þess að það er miklu auðveldara að fylgjast stíft með lélegu sjónvarpsefni á meðan prjónað er.

Sem sagt, þið sem prjónið: Eyðið einu (eða mögulega tveimur) kvöldum í að læra þetta. Það verður ekki aftur snúið. Þið þurfið samt ekkert að kaupa bókina frekar en þið viljið því það er fólk út um allt internetið að kenna þetta, t.d. á YouTube.

 

Smíðavellirnir í Sunnugerði

Varúð. Hér á eftir fara plebbaleg skrif um sólpall. Á þeim hafa líklega fáir aðrir lyst en garðáhugafólk, frístundasmiðir og skógræktarmenn.


Eitt af því sem ég hef lært á þessum fimm árum sem ég hef átt húsnæðislán er að öruggasta leiðin til að lenda á spjalli við fólk af handahófi í bænum er að ráðast í framkvæmdir við húsið.

Í fyrra réðumst við í það sjálfgefna verkefni fyrir millistéttarfólk í einbýli að byggja sólpall. Þegar ég segi „við“ þá meina ég að ég hafi teiknað pallinn, skjólvegginn og valið efnið. Svo var ég bara voðalega mikið ólétt, með grindargliðnun og í almennu líkamlegu óstuði. Þannig æxlaðist það að maðurinn minn, félagsfræðingurinn, fór að smíða. Hann stóð sig svona líka ljómandi vel og þetta hófst allt saman, með mikilli og ómetanlegri hjálp frá vinum og ættingjum.

Nú, ástæðan fyrir því að ég skrifa nokkrar línur um þetta hér er sú að í fyrrasumar fengum við ótal spurningar um þennan furðulega skjólvegg sem sást rísa hér á Reyðarfirði. Hann var nefnilega dálítið öðruvísi en allir hinir. Spurningunum er ekki lokið, því síðast  kom til mín maður fyrir nokkrum dögum sem sagðist hafa fylgst með smíðinni úr fjarlægð og nú bara yrði hann að fá að vita meira.

Ég hef undanfarin ár starfað sem kynningarstjóri hjá Skógrækt ríkisins. Í því skemmtilega starfi hef ég séð allskyns áhugaverða notkun á íslensku timbri sem nú er skyndilega fáanlegt í talsvert meira magni en áður. Skömmu áður en við byrjuðum að smíða hafði ég séð afar fallega klæðningu á skemmu þar sem borðin voru ekki köntuð, heldur fékk lag trésins að halda sér. Þetta datt mér í hug að gæti líka verið fallegt í skjólvegg svo við töluðum við skógarvörðinn og nokkrum vikum seinna sóttum við tvö tonn af timbri upp á Hallormsstað. Við tók þetta hefðbundna: steypa undirstöður, smíða grind, gera og græja.

Í bæði pallinn og vegginn keyptum við lerki. Við létum kanta lerkið sem fór í pallinn en í völdum ókantað lerki með berki í vegginn og lögðum borðin svo sitt á hvað, þ.e. eitt borð ofan á samskeytin á tveimur. Eins og venjan er líklega með svona framkvæmdir var oft unnið fram á kvöld. Eitt kvöldið stóðu þeir þrír hér við að skrúfa klæðninguna á vegginn en þegar það var búið var sagað ofan af klæðningunni til að jafna hana áður en borð var lagt ofan á til að loka veggnum. Það rétt kláraðist að klæða vegginn fyrir myrkur og dagana á eftir var rigning og óspennandi smíðaveður. Þess vegna stóð veggurinn svona, svolítið eins og smíðavellir krakkanna, í nokkra daga (sjá fjórðu myndina hér að ofan). Á þeim skamma tíma sögðu nokkrir hér í bæ mér það í óspurðum fréttum að hann væri nú svolítið „frumlegur“ og „öðruvísi“ þessi skjólveggur sem við hefðum verið að reisa. Við hugleiddum þessa rigningardaga að leyfa honum að standa svona svolítið lengur en svo kom sól.

Í lok sumars kláraðist sem sagt pallurinn og veggurinn en ekki spurningarnar. Hér eru því örlitlar praktískar upplýsingar.

Klæðningin á veggnum og pallinum er úr lerki. Pallurinn er úr köntuðu lerki en veggurinn óköntuðu. Við pússuðum dekkið á pallinum eftir að búið var að leggja það en létum vegginn halda sér svona grófum. Lerkið var allt keypt hjá Skógrækt ríkisins á Hallormsstað. Efnið þarf að sérpanta vegna þess að Skógræktin annar ekki allri eftirspurninni og er því ekki með lager af sögðu timbri. Það er líka bara betra þegar maður stendur í svona framkvæmdum vegna þess að þá getur maður fengið þetta allt saman sagað í þær lengdir sem henta. Lerki er gætt þeim stórkostlega eiginleika að hafa innbyggða fúavörn. Það þarf sem sagt ekki að sulla á það heilu lítrunum af fúavörn með reglulegu millibili. Í rauninni þarf ekkert að bera á það frekar en maður vill en þá hvítnar það að vísu með tímanum. Þessi hvíti timburlitur getur passað virkilega vel við sum hús en okkur fannst hann ekki passa við timburhúsið okkar, svo við bárum á lerkið ljósa olíu. Litamunurinn sést vel á næstsíðustu myndinni og reyndar þeirri síðustu líka, þar sem hundurinn dormar á þeim hluta pallsins sem við vorum ekki búin að bera á. Annað timbur, þ.e. undirstöður, stöplar og stífur, eru úr palladeildinni í Byko.

Jæja. Þetta voru nú mörg orð um frekar ómerkilegan en svolítið örðuvísi sólpall.

Hér að lokum má svo sjá dásamlega útsýnið af pallinum. Mögulega saga ég þennan ljósastaur niður einhvern tíma í skjóli nætur.