Select Page

Ikea

Það er búið að vera ansi mikið að gera hjá mér síðustu daga, svo mikið reyndar að ég opnaði ekki Ikea-bæklinginn fyrr en næstum viku eftir að hann barst inn á hemilið. Viku! Það er heil eilífð þegar brakandi ferskur Ikea-bæklingur er annars vegar. Á þessari viku hef ég séð glitta í allnokkrar bloggfærslur um allt þetta nýja og fína í listanum sem freistar. Það er auðvitað nóg af því eins og venjulega en það er líka margt svolítið undarlegt í listanum – líka eins og venjulega.

 

Ikea

Forever alone? Mátti ekki splæsa í annan krakka á þessa mynd, svona fyrst það er verið að spila bílaleik fyrir tvo?

Ikea

Finnst þér óskaplega gaman að taka selfie? Náðu þér þá í spegil sem lítur út eins og iPhone.

Húsbílar? Í þessi skipti sem ég hef íhugað að flytja í Ikea hafa útstillingarnar nú heillað mig meira en bílastæðin.

Húsbílar? Í þessi skipti sem ég hef íhugað að flytja í Ikea hafa útstillingarnar nú heillað mig meira en bílastæðin.

Ikea

Þessi tók ekki af sér sólgleraugun fyrr en rétt áður en hann lagðist upp í. Hver býr eiginlega þarna? Bubbi?

 

 

6 ástæður fyrir því að ég á ekki rándýr húsgögn

Á mínu heimili eru engin dýr húsgögn eða innanstokksmunir. Dýrasti hluturinn er sjónvarpið. Annað hefur kostað talsvert minna. Sófarnir eru þrír. Einn þeirra átti maðurinn minn áður en við kynntumst. Hinir tveir kostuðu 25.000 kr. og 5.000 kr. Borðstofuborðið kostaði 1.500 kr. Eldhúsborðið kostaði málningarfötu. Þið skiljið hvert ég er að fara.

Ég er svo gott sem einráð í þessum málaflokki á heimilinu. Áhugi eiginmannsins er afar lítill, svo lítill reyndar að þegar góð vinkona mín gaf mér fína Iittala skál í þrítugsafmælisgjöf í vetur horfði hann á mig furðulostinn og spurði: „Bikar?“ Ekki misskilja mig, ég hef gaman af fallegum hlutum, en það eru bara nokkuð margar góðar ástæður fyrir því að ég á ekki dýr húsgögn.

1.  Ég er hugvísindamenntaður millistéttarauli. Þegar ég er búin að gera allskyns temmilega spennandi hluti, eins og að borga af húsnæðisláninu mínu, kaupa í matinn fyrir mánuðinn og taka bensín nokkrum sinnum, þá eru engir hundraðþúsundkallar eftir.

2.  Ég á smábarn. Fyrr en síðar mun það byrja að krota með permanent marker, sulla mat þar sem matur á ekki að vera og sparka bolta innanhúss. Þá er nú fínt að vasinn sem endar í frumeindum á flísunum sé bara úr Ikea.

3.  Ég á líka hund. Stundum er mér kalt á tánum og þá er afar hentungt að fá fjögurra lappa, loðinn hitapoka upp í sófa til sín.1 Það er allt í lagi að klær komi við áklæði sem kostaði bara smotterí.

4.  Ég er ekki til í að eiga húsgögn eða innanstokksmuni sem ég sé í hverju Hús&híbýlinu á fætur öðru. Mér finnst skemmtilegra að eiga eitthvað aðeins öðruvísi. Ég veit að þetta er í hrópandi mótsögn við margra ára farsæla viðskiptasögu mína við Ikea en þar er fínt að versla í bland við annað. Skemmtilegast finnst mér að mála og breyta einhverju sem mér áskornast fyrir lítinn pening. Þannig get ég prófað eitthvað mjög spes og ef það fullkomlega misheppnast þá einfaldlega mála ég yfir eða í versta falli hendi því.2

5.  Ef innanstokkstilraunir með ódýran efnivið heppnast vel þá hef ég hlutinn hjá mér þar til ég verð leið á honum. Kostnaðurinn við að breyta verður aldrei mikill. Enginn þarf að fá móral yfir að skipta úr kommóðu sem var keypt í Góða hirðinum.

6.  Þetta á að vera „heima”. Mér og mínu fólki á að líða vel í húsinu okkar og við eigum vissulega að geta hagað okkur eins og heima hjá okkur. Ég myndi aldrei hafa mig í að þurrka af skónum mínum á dyramottunni ef ég vissi að hún kostaði í alvörunni fimmtíu þúsund.3


 

1 Já, ég hleypi hundinum upp í sófa. Svo sleikir hann stundum barnið. Við trúum á uppbyggingu ónæmiskerfisins. En við skúrum samt stundum.

2 Þetta er lygi. Ég hendi aldrei neinu. Þið getið kíkt inn um gluggann á bílskúrnum mínum þeirri fullyrðingu til staðfestingar.

3 Hún fæst í Epal ef þið hafið áhuga.