Select Page

6 ástæður fyrir því að ég á ekki rándýr húsgögn

Á mínu heimili eru engin dýr húsgögn eða innanstokksmunir. Dýrasti hluturinn er sjónvarpið. Annað hefur kostað talsvert minna. Sófarnir eru þrír. Einn þeirra átti maðurinn minn áður en við kynntumst. Hinir tveir kostuðu 25.000 kr. og 5.000 kr. Borðstofuborðið kostaði 1.500 kr. Eldhúsborðið kostaði málningarfötu. Þið skiljið hvert ég er að fara.

Ég er svo gott sem einráð í þessum málaflokki á heimilinu. Áhugi eiginmannsins er afar lítill, svo lítill reyndar að þegar góð vinkona mín gaf mér fína Iittala skál í þrítugsafmælisgjöf í vetur horfði hann á mig furðulostinn og spurði: „Bikar?“ Ekki misskilja mig, ég hef gaman af fallegum hlutum, en það eru bara nokkuð margar góðar ástæður fyrir því að ég á ekki dýr húsgögn.

1.  Ég er hugvísindamenntaður millistéttarauli. Þegar ég er búin að gera allskyns temmilega spennandi hluti, eins og að borga af húsnæðisláninu mínu, kaupa í matinn fyrir mánuðinn og taka bensín nokkrum sinnum, þá eru engir hundraðþúsundkallar eftir.

2.  Ég á smábarn. Fyrr en síðar mun það byrja að krota með permanent marker, sulla mat þar sem matur á ekki að vera og sparka bolta innanhúss. Þá er nú fínt að vasinn sem endar í frumeindum á flísunum sé bara úr Ikea.

3.  Ég á líka hund. Stundum er mér kalt á tánum og þá er afar hentungt að fá fjögurra lappa, loðinn hitapoka upp í sófa til sín.1 Það er allt í lagi að klær komi við áklæði sem kostaði bara smotterí.

4.  Ég er ekki til í að eiga húsgögn eða innanstokksmuni sem ég sé í hverju Hús&híbýlinu á fætur öðru. Mér finnst skemmtilegra að eiga eitthvað aðeins öðruvísi. Ég veit að þetta er í hrópandi mótsögn við margra ára farsæla viðskiptasögu mína við Ikea en þar er fínt að versla í bland við annað. Skemmtilegast finnst mér að mála og breyta einhverju sem mér áskornast fyrir lítinn pening. Þannig get ég prófað eitthvað mjög spes og ef það fullkomlega misheppnast þá einfaldlega mála ég yfir eða í versta falli hendi því.2

5.  Ef innanstokkstilraunir með ódýran efnivið heppnast vel þá hef ég hlutinn hjá mér þar til ég verð leið á honum. Kostnaðurinn við að breyta verður aldrei mikill. Enginn þarf að fá móral yfir að skipta úr kommóðu sem var keypt í Góða hirðinum.

6.  Þetta á að vera „heima”. Mér og mínu fólki á að líða vel í húsinu okkar og við eigum vissulega að geta hagað okkur eins og heima hjá okkur. Ég myndi aldrei hafa mig í að þurrka af skónum mínum á dyramottunni ef ég vissi að hún kostaði í alvörunni fimmtíu þúsund.3


 

1 Já, ég hleypi hundinum upp í sófa. Svo sleikir hann stundum barnið. Við trúum á uppbyggingu ónæmiskerfisins. En við skúrum samt stundum.

2 Þetta er lygi. Ég hendi aldrei neinu. Þið getið kíkt inn um gluggann á bílskúrnum mínum þeirri fullyrðingu til staðfestingar.

3 Hún fæst í Epal ef þið hafið áhuga.

 

Hið nýja fjölskyldualbúm

Mér finnst gaman að taka myndir og hef alltaf gert frekar mikið af því, alveg frá því að mamma og pabbi gáfu mér litla myndavél fyrir fyrstu utanlandsferðina. Ég var meira að segja mjög dugleg við að láta framkalla, raða í albúm og skrifa samviskusamlega við myndirnar. Svo komu stafrænu myndavélarnar. Þá liðu mörg ár án þess að ég prentaði meira en stöku mynd og yfirleitt á lélegan pappír. Þessar örfáu myndir fóru ekki í neitt albúm og einhverra hluta vegna voru þær ekki skoðaðar nærri eins oft í tölvunni. Fyrir fimm árum tapaði ég síðan nokkrum myndum, sem betur fer ekki mörgum mánuðum eða árum, en nógu miklu til að fá kvíðakast. Hvað ef þetta hefði verið allt myndasafnið mitt? Nú yrði ég að hunskast til að koma þessum myndum eitthvað lengra en á harðan disk.

Ég fór að skoða hvaða möguleikar væru í boði og fann lausn sem mér fannst hafa afar marga kosti: Ég lét prenta bók – árbók fyrir okkur í fjölskyldunni.

Gömlu, góðu myndaalbúmin höfðu þann ókost að þar var öllum myndum gert jafnhátt undir höfði; þær voru allar jafnstórar og textasvæðið sem fylgdi þeim líka. Þetta er vonlaust fyrirkomulag því sumar myndir vill maður eiga stórar og láta langan texta fylgja þeim en aðrar mega vera litlar og við þær þarf ekki að skrifa neitt. Í bókinni eru myndirnar allar prentaðar beint á pappírinn en ekki faldar á bakvið plast. Stundum heldur maður líka upp á einhverja hluti, t.d. úr ferðalögum, sem rúmast illa í hefðbundnu albúmi en þá má flesta skanna inn og setja í bókina. Sem sagt, bókin opnar á allskyns möguleika sem albúmið gerir ekki.

Árið 2009 bjó ég fyrstu bókina til hjá fyrirtækinu Blurb. Ástæðan fyrir því að ég valdi Blurb var einfaldlega sú að á þessum tíma kunni ég ekkert fyrir mér í umbroti og þeir buðu upp á afar einfalt og notendavænt forrit til að búa bókina til. Ég sé að þeir bjóða enn upp á forritið og hafa auðvitað bætt það síðan ég notaði það síðast. Þetta er forrit sem allir geta notað og nákvæmlega engin reynsla af svona dútli er nauðsynleg. Fyrir þá sem hafa hins vegar einhverja reynslu bjóða þeir upp á að maður hanni bókina algjörlega frá grunni og sendi þeim hana tilbúna.

Nú er ég ekki á neinum prósentum hjá Blurb. Mig langar bara einlæglega að mæla með þeim. Prentun og frágangur stendur alltaf undir væntingum og í þetta eina skipti sem ég lenti í veseni (þegar bókin skemmdist í flutningi) fékk ég framúrskarandi þjónustu. Frá því ég byrjaði að setja saman bækur fyrir okkur á heimilinu hafa nokkur íslensk fyrirtæki farið að bjóða upp á þessa þjónustu. Ég hef ekki skipt við þau, svo ég hef ekki samanburðinn, en verðið hjá Blurb hefur hingað til verið talsvert betra. Og talandi um verð, þá bjóða þeir upp á $20 afslátt fyrir þau ykkar sem hafa áhuga á að láta prenta bók hjá þeim:
Fá afsláttinn.

 

Misheppnuðu myndirnar

Ég reyni eins og ég get að vera dugleg við að taka myndir. Einhvern veginn tekur maður aldrei of mikið af myndum. Að sjálfsögðu er enn mikilvægara að taka reglulega myndir þegar barnið er komið í spilið því það breystist svo ógnarhratt. Þótt mér finnist uppstillt smábörn ekki nærri eins skemmtilegt myndefni og smábörn að vera smábörn, þá reyni ég annað slagið að drífa Iðunni Elísu í sæmilega birtu og grípa eitthvað annað og betra en símann til að mynda. Niðurstaðan er alltaf sú sama: Misheppnuðu myndirnar eru lang skemmtilegastar.

Stuldur

10376992_10152876163069606_5295756168561239805_nSumarið sem ég var tíu ára áttu körfaboltamyndir hug og hjörtu flestra á mínum aldri. Það komst lítið annað að. Einn daginn, á miðju sumri, komst nákvæmlega ekkert annað að í mínum huga og ég asnaðist til að stela peningum. Ég stal fimmhundruðkalli frá mömmu og pabba og minnir að hann hafi dugað fyrir tveimur pökkum af körfuboltamyndum.

Um kvöldið komst þessi verknaður upp. Ég man ennþá tilfinninguna þegar var lesið yfir hausamótunum á mér, mappan með öllum körfuboltamyndunum gerð upptæk og ég send inn í herbergi með þeim skilaboðum að möppuna sæi ég aldrei aftur. Ég man líka vel að hafa rölt út í bæ daginn eftir og skáldað upp skýringar á því hvers vegna ég var ekki með möppuna með mér, eins og allir hinir. Þóttist vera vaxin upp úr þessum barnalegu körfuboltamyndum. Gott ef ég reyndi ekki líka að telja krökkunum trú um að það væri enginn að safna þeim lengur í Reykjavík. Skömmina vissi ég auðvitað strax upp á mig en það var ekki fyrr en talsvert löngu síðar sem ég fór að kunna foreldrum mínum bestu þakkir fyrir þessa lexíu. Ég stal aldrei peningum aftur, svo mikið er víst.

Nú, jæja. Ég velti fyrir mér hvort ég ætti að dást að staðfestunni hjá foreldrum mínum eða líta á það sem heilan saltstauk í sárin, þegar faðir minn afhenti mér möppuna aftur í gær, aðeins tuttugu árum síðar.

P.S. Vill einhver bítta á nokkrum myndum? Á margar af Jordan og líka nokkrar þrívíddarmyndir.