Select Page
Tvær jólagjafahugmyndir – fyrir næstu jól

Tvær jólagjafahugmyndir – fyrir næstu jól

„Vantar ekkert. Á nóg af öllu. Langar ekki í neitt sérstakt.“

Hvað gefur maður svona fólki í jólagjöf? Ef þetta er sama fólkið og er að reyna að hemja sig að heimsækja barnabarnið/frænkuna ekki daglega og finnst aldrei nóg af myndum eða fréttum af henni, þá eru hér tvær hugmyndir – báðar heimatilbúnar.

Jólagjafir

Jólagjafir

Í bókina raðaði ég saman allskyns myndum frá fyrsta árinu hennar Iðunnar Elísu á einar 80 blaðsíður. Brotið er frekar lítið og skemmtilegt (18 x 18 cm) og bókin er prentuð hjá Blurb (sem ég þreytist ekki á að dásama).

Kúluna keypti ég í Ikea fyrir nokkrum árum. Ég notaði föndurlit frá Mörthu Stewart og strauk honum yfir hendina á Iðunni Elísu með svampi. Á hinni hliðinni eru síðan límstafir skornir sérstaklega út fyrir þetta verkefni en það er auðvitað hægt að kaupa allskyns límstafi í föndurbúðum.

Af augljósum ástæðum var ekki hægt að birta þessar myndir fyrir jól en kannski nýtast þær einhverjum sem hugmyndir fyrir næstu jólapakka. Þær slógu allavega í gegn hér.

Kökuskrímslið

Í dag er frumburðurinn eins árs. Heilt ár liðið frá því ég missti vatnið eins og í bíómyndunum og skömmu síðar kom Iðunn Elísa í heiminn á meðan „Hjálpum þeim“ hljómaði í útvarpinu. Viðeigandi.

Í tilefni dagsins rúttuðum við til í stofunni og bökuðum köku sem mátti skemma. Það er nú lágmark að fá að skemma eina köku þegar maður á afmæli í fyrsta sinn.

Í skóinn

Athugið að í þessum skrifum koma fram andsamfélagslegar hugmyndir um hverjir gefa börnum í skóinn.

Við foreldrarnir fórum að velta því fyrir okkur um daginn hvenær barnið okkar ætti að byrja að fá í skóinn. Núna veit það ekki hvað snjórinn sem það sá í fyrsta sinn í dag er, svo líklega kemur enginn jólasveinn hingað þessa aðventuna. Í þessum vangaveltum rifjaðist upp fyrir mér þegar við systkini fengum eitthvað miður skemmtilegt í skóna. Reyndar fengum við systkini aldrei neitt í skó. Við áttum forláta ameríska jólasokka sem héngu í forstofunni en ég sé núna hversu snjallt það var hjá foreldrum okkar sem losnuðu alveg við að klifra yfir okkur sofandi í rúmunum.

Verandi fimm árum eldri en bróðir minn græddi ég gjafir frá jólasveinunum örlítið lengur en ella, því ekki fara þeir bræður nú að mismuna börnum sökum aldurs. Ég man þess vegna mjög skýrt og greinilega eftir einu skiptinu (já, þau voru líklega fleiri en eitt) sem ég fékk kartöflu. Ætli ég haf ekki verið sex eða sjö ára. Ég er fyrir löngu búin að gleyma hvað það var sem ég gerði af mér daginn áður en augljóslega hef ég vitað upp á mig skömmina, því ég læddist fram á undan öðrum heimilismeðlimum til að fá þann grun minn staðfestan að í sokknum leyndist kartafla. Svo læddist ég aftur inn í herbergi. Morgunrútínan fór í gang og á milli þess sem ég klæddi mig, borðaði morgunmatinn og tók til skóladótið spurðu mamma og pabbi mig nokkrum sinnum að því hvort ég væri búin að kíkja í sokkinn og hvað ég hefði fengið. Ég var, aldrei þessu vant, pollróleg og áhugalaus yfir fengnum í sokknum: „Nei, ég ætla bara að kíkja á eftir.“ Mér lá síðan ósköpin öll á í skólann þennan morguninn og „hafði ekki tíma“ til að skoða hvað jólasveinninn hafði komið með handa mér. Þegar ég kom heim í hádegismat var ég ekki enn búin að telja í mig kjark til að takast á við þessa kartöflu. Það var ekki fyrr en rétt áður en ég rauk aftur í skólann sem ég veiddi hana upp úr sokknum í forstofunni og henti henni í ruslatunnuna á leiðinni í skólann. Best að eyða öllum sönnunargögnum um þessa óþægð.

Örfáum árum síðar tókst litli bróðir minn síðan á við það áfall að fá kartöflu í skóinn. Hann gerði það á allt annan og talsvert betri hátt en ég. Það er auðvitað vitað mál að annað barn hjóna er aldrei eins vel uppalið og það fyrsta, svo kannski var hann bara svo oft óþægur sem barn og því undir það búinn að fá kartöflu. Kannski hafði ekki tekist að koma honum alveg í skilning um hvað kartaflan táknaði. Kannski hafði hann bara náð fullkomnu hugarástandi hinnar óþolandi jákvæðu Pollýönnu. Ég skal ekki segja. Hann tók þessari sendingu sveinka allavega með stóískri ró og geymdi kartöfluna. Nokkrum dögum síðar, þegar hann var kominn í sparifötin og lakkskóna, stakk hann kartöflunni í vasann. Á jólaballinu hafði hann lítinn áhuga á mandarínum og jólasöngvum. Hann vildi bara ná tali af þessum Gáttaþef. Hann þurfti nefnilega að skila honum kartöflu.

Della

Ég hef fengið ýmis konar dellu í gegnum tíðina. Mér finnst gaman að prjóna og stundum prjóna ég eina peysu, þrjú pör af vettlingum og tvö teppi í einum og sama mánuðnum. Svo legg ég prjónana til hliðar og snerti þá ekki nokkra mánuði. Í millitíðinni rifja ég upp ljósmyndadelluna, vefsíðudelluna eða eitthvað allt annað. Ég staldra aldrei mjög lengi við í einni dellu og það er einmitt út af þessu margklofna áhugasviði sem ég á svolítið erfitt með að skilja fólk sem er með eina meiriháttar dellu, jafnvel svo árum skiptir.

Þegar ég átti von á mínu fyrsta og eina barni stóð ég allt í einu frammi fyrir því að ég varð eiginlega að fá barnadellu.1 Valmöguleikarnir þegar kom að einföldustu ákvarðanatökum voru svo ógnarmargir og miklu fleiri en mig hafði nokkurn tíma grunað. Ég hélt t.d. að það yrði frekar einfalt mál að kaupa barnavagn. Ég hélt að ákvarðanirnar sem þyrfti að taka væru í mesta lagi þrjár: Gróf eða slétt dekk, samanbrjótanlegan eða ekki samanbrjótanlegan og svo í hvaða lit ég vildi herlegheitin. Já, nei. Þetta var aldeilis ekki svona einfalt. Vildi ég vagn með kerrustykki? Innfelldu flugnaneti eða lausu? Og með systkinapalli?Ég spurði vinkonurnar, enda hoknar af reynslu í þessum efnum, en kom að tómum kofanum. Það þýddi víst ekkert að gefa mér einhverjar almennar leiðbeiningar um hvað ég ætti að kaupa. Það væri algjörlega út í hött. Ég yrði bara að leggjast yfir þetta, skoða og bera saman, til að geta tekið upplýsta ákvörðun um hvers konar vagn hentaði mér og barninu mínu. Fjandinn! Af hverju í ósköpunum er ekki bara til einn barnavagn, hannaður og framleiddur af íslenska ríkinu? Ég hreinlega nennti ekki að gera mér upp svona mikinn áhuga á barnavögnum.3 Engu að síður fór ég nú að lesa og skoða. Bara smá samt, því mjög fljótlega rakst ég á þessa auglýsingu og gafst endanlega upp á sömu sekúndunni: „Viltu spóka þig um götur borgarinnar með litla kraftaverkið þitt í vagni sem fær hinar mömmurnar til að snúa sér við.“

Önnur ákvarðanataka sem lá fyrir var um valið á milli þess að hafa barnið í bréfbleium eða taubleium.4 Yfirborðskenndur samanburður leiddi tvennt í ljós: Taubleiur voru langtum betri fyrir umhverfið og til lengri tíma talsvert ódýrari. Valið var því ekki erfitt og ég skráði mig í hóp um taubleiur á Facebook. Ég hélt nefnilega að þannig myndi ég verða fljót að setja mig inn í þessi mál án þess þó að þurfa að kynna mér þau eins vel og barnavagna. Enn einn misskilningurinn af minni hálfu.5 Þvílíkur frumskógur! Fyrst hélt ég að í hópnum talaði fólk ekki íslensku því þarna voru mömmurnar6 að segja frá að þær ættu prefolds, cover og AIO, að uppáhaldsbleiurnar væru BG og TB að flestar væru OS. Þarna eru bleiur sko ekki bara bleiur, eins og margur hefði getað haldið í fávisku sinni. Nei, því það skiptir t.d. sumar mömmur máli að geta klætt barnið sitt í taubleiur í réttri litaröð yfir daginn, sem sagt byrja á þeirri gulu, velja næst rauðu o.s.frv. Ég þraukaði aðeins lengur í upplýsingaleit um bleiur en barnavagna en það er skemmst frá því að segja að henni lauk svona um það bil þegar ég las auglýsingu um notuðu taubleiurnar sem „aldrei hafði verið kúkað í“.


 

1 Samt ekki dellu fyrir börnum sko, heldur dellu fyrir öllu þessu drasli sem okkur er sagt að þau þurfi nauðsylega á að halda. 

2 Ég vissi ekki einu sinni hvað systkinapallur var. Ok, ég veit það eiginlega ekki ennþá. 

Ég óskaði þess reyndar einu sinni að ég hefði reynt að setja mig aðeins betur inn í þessi mál. Þá var ég búin að standa yfir vagninum sem við keyptum í rúman hálftíma og gat alls ekki skilið hvernig ætti að rífa vagnstykkið af til að setja kerrustykkið á. Ég íhugaði mjög alvarlega að hringja í bróður minn, bifvélavirkjan.

4 Í huga lesenda sem eru komnir af barneignaaldri merkir orðið taubleia allt annað en það gerir í dag. Gúgglið þetta áður en ykkur svelgist illa á kaffinu, því þið eru líklega að hugsa um hvítu tuskurnar með nælunni sem allir voru svo fegnir að losna við.

5 Þetta fer að verða örlítið vandræðalegt. Ég lofa að ég mun ekki reyna að stytta mér svona leiðir í uppeldinu á umræddu barni. Allavega ekki oft.

6 Engar áhyggjur, ég er mjög pólitískt rétthugsandi. Það eru bara rosalega fáir pabbar meðlimir í þessum hópi.

Fjöruferð

Við fórum í fyrstu fjöruferðina með Iðunni Elísu um helgina. Tími til kominn að sýna henni bæði sjó og sand í návígi.

Smíðavellirnir í Sunnugerði

Varúð. Hér á eftir fara plebbaleg skrif um sólpall. Á þeim hafa líklega fáir aðrir lyst en garðáhugafólk, frístundasmiðir og skógræktarmenn.


Eitt af því sem ég hef lært á þessum fimm árum sem ég hef átt húsnæðislán er að öruggasta leiðin til að lenda á spjalli við fólk af handahófi í bænum er að ráðast í framkvæmdir við húsið.

Í fyrra réðumst við í það sjálfgefna verkefni fyrir millistéttarfólk í einbýli að byggja sólpall. Þegar ég segi „við“ þá meina ég að ég hafi teiknað pallinn, skjólvegginn og valið efnið. Svo var ég bara voðalega mikið ólétt, með grindargliðnun og í almennu líkamlegu óstuði. Þannig æxlaðist það að maðurinn minn, félagsfræðingurinn, fór að smíða. Hann stóð sig svona líka ljómandi vel og þetta hófst allt saman, með mikilli og ómetanlegri hjálp frá vinum og ættingjum.

Nú, ástæðan fyrir því að ég skrifa nokkrar línur um þetta hér er sú að í fyrrasumar fengum við ótal spurningar um þennan furðulega skjólvegg sem sást rísa hér á Reyðarfirði. Hann var nefnilega dálítið öðruvísi en allir hinir. Spurningunum er ekki lokið, því síðast  kom til mín maður fyrir nokkrum dögum sem sagðist hafa fylgst með smíðinni úr fjarlægð og nú bara yrði hann að fá að vita meira.

Ég hef undanfarin ár starfað sem kynningarstjóri hjá Skógrækt ríkisins. Í því skemmtilega starfi hef ég séð allskyns áhugaverða notkun á íslensku timbri sem nú er skyndilega fáanlegt í talsvert meira magni en áður. Skömmu áður en við byrjuðum að smíða hafði ég séð afar fallega klæðningu á skemmu þar sem borðin voru ekki köntuð, heldur fékk lag trésins að halda sér. Þetta datt mér í hug að gæti líka verið fallegt í skjólvegg svo við töluðum við skógarvörðinn og nokkrum vikum seinna sóttum við tvö tonn af timbri upp á Hallormsstað. Við tók þetta hefðbundna: steypa undirstöður, smíða grind, gera og græja.

Í bæði pallinn og vegginn keyptum við lerki. Við létum kanta lerkið sem fór í pallinn en í völdum ókantað lerki með berki í vegginn og lögðum borðin svo sitt á hvað, þ.e. eitt borð ofan á samskeytin á tveimur. Eins og venjan er líklega með svona framkvæmdir var oft unnið fram á kvöld. Eitt kvöldið stóðu þeir þrír hér við að skrúfa klæðninguna á vegginn en þegar það var búið var sagað ofan af klæðningunni til að jafna hana áður en borð var lagt ofan á til að loka veggnum. Það rétt kláraðist að klæða vegginn fyrir myrkur og dagana á eftir var rigning og óspennandi smíðaveður. Þess vegna stóð veggurinn svona, svolítið eins og smíðavellir krakkanna, í nokkra daga (sjá fjórðu myndina hér að ofan). Á þeim skamma tíma sögðu nokkrir hér í bæ mér það í óspurðum fréttum að hann væri nú svolítið „frumlegur“ og „öðruvísi“ þessi skjólveggur sem við hefðum verið að reisa. Við hugleiddum þessa rigningardaga að leyfa honum að standa svona svolítið lengur en svo kom sól.

Í lok sumars kláraðist sem sagt pallurinn og veggurinn en ekki spurningarnar. Hér eru því örlitlar praktískar upplýsingar.

Klæðningin á veggnum og pallinum er úr lerki. Pallurinn er úr köntuðu lerki en veggurinn óköntuðu. Við pússuðum dekkið á pallinum eftir að búið var að leggja það en létum vegginn halda sér svona grófum. Lerkið var allt keypt hjá Skógrækt ríkisins á Hallormsstað. Efnið þarf að sérpanta vegna þess að Skógræktin annar ekki allri eftirspurninni og er því ekki með lager af sögðu timbri. Það er líka bara betra þegar maður stendur í svona framkvæmdum vegna þess að þá getur maður fengið þetta allt saman sagað í þær lengdir sem henta. Lerki er gætt þeim stórkostlega eiginleika að hafa innbyggða fúavörn. Það þarf sem sagt ekki að sulla á það heilu lítrunum af fúavörn með reglulegu millibili. Í rauninni þarf ekkert að bera á það frekar en maður vill en þá hvítnar það að vísu með tímanum. Þessi hvíti timburlitur getur passað virkilega vel við sum hús en okkur fannst hann ekki passa við timburhúsið okkar, svo við bárum á lerkið ljósa olíu. Litamunurinn sést vel á næstsíðustu myndinni og reyndar þeirri síðustu líka, þar sem hundurinn dormar á þeim hluta pallsins sem við vorum ekki búin að bera á. Annað timbur, þ.e. undirstöður, stöplar og stífur, eru úr palladeildinni í Byko.

Jæja. Þetta voru nú mörg orð um frekar ómerkilegan en svolítið örðuvísi sólpall.

Hér að lokum má svo sjá dásamlega útsýnið af pallinum. Mögulega saga ég þennan ljósastaur niður einhvern tíma í skjóli nætur.