Select Page

Lokaorð um SSA og fjölmiðla

Það er auðvitað margfalt skemmtilegra að skrifa uppúr úr ferðadagbókinni en að taka þátt í þessari langloku en ég ætla nú samt að árétta eitt og annað varðandi umfjöllun um SSA og fjölmiðla síðustu daga. Umræðan hefur nefnilega – eins og hún gerir svo oft þegar hún verður óþægileg fyrir þá sem um ræðir – farið að snúast um eitthvað allt annað. Mér hafa verið gerðar upp skoðanir, t.d. að ég telji fjölmiðla yfir gagnrýni hafna, þá megi ekki leiðrétta og að ég beinlínis vilji sýna neikvæða mynd af Austurlandi (sú síðasta finnst mér fyndnust). Flestir hafa í framhaldinu skammast yfir rekstri RÚV, lokun svæðisútvarpsins o.s.frv. Á þessu hef ég vissulega skoðarnir, trúið mér. Miklar og sterkar skoðanir. Ég ligg ekkert á þeim en ég var bara ekkert að tala um þessa hluti í þetta sinn. Ég var að tala um það sem fram kom á bæjarstjórnarfundi í Fjarðabyggð þann 20. janúar s.l. Þá skrifaði ég um það sem Valdimar O. Hermannsson sagði og mér fannst athugunarvert, en það var t.d. þetta:

  • „Það hefur verið óskað eftir því að fréttamaður RÚV hér á Austurlandi taki jákvæðara sjónarhorn á þær fréttir sem hann flytur, bæði af þessum málum og öðrum […] að fréttamat þeirra væri með jákvæðari hætti og þeim var sendur langur listi um verkefni og málefni hér á Austurlandi sem væru fréttnæm.”
  • „…Nú þegar […] er verið að vinna úr ábendingum um þessa liði, bæði athugasemdum og ábendingum, um fréttaval á fréttastofunum.”

Valdimar er, auk þess að vera bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð, formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) og talaði um að þetta tvennt, þ.e. óskir um jákvæðara sjónarhorn og óskalisti yfir fréttir, hefði SSA sent frá sér. Það er kannski einfeldni í mér en ég var nokkuð viss um að sjálfur formaður SSA vissi hvað SSA væri að gera. Síðan þá hefur hins vegar ýmislegt komið í ljós sem bendir til að svo sé alls ekki.

  • SSA hefur ekki sent neitt formlegt bréf um fréttaflutning frá sér til fjölmiðla, samkvæmt því sem framkvæmdastjóri SSA, Björn Hafþór Guðmundsson, segir – hvorki óskir um jákvæðara sjónarhorn né óskalista yfir fréttir.
  • Enginn fjölmiðill (hvorki RÚV eða Austurglugginn, eins og Valdimar talaði um) kannast við listann frá SSA og þaðan af síður að vera að vinna úr honum.
  • Listinn sem Valdimar talaði um og óskir um jákvætt sjónarhorn á fréttir frá Austurlandi er væntanlega persónulegt bréf Björns Hafþórs, sent í hans eigin nafni, til eins fréttamanns RÚV, eins og fram kemur í Austurglugganum í síðustu viku.

Þetta eru sem sagt staðreyndir málsins.

Ég sé að ég hef sært Stefán Boga Sveinsson, forseta bæjarstjórnar á Fljótsdalshéraði. Ég er ekki hissa á því að honum sárni að vera tengdur við þennan gjörning eins og hann var kynntur af Valdimari á bæjarstjórnarfundinum. Ég gerði einfaldlega þau mistök – og á þeim biðst ég innilega afsökunar, Stefán – að gleypa við hverju orði sem Valdimar sagði, í trausti þess að hann vissi um hvað hann var að tala. Ég gat ekki ímyndað mér annað en að stjórnin hlyti, með einhverjum hætti, að hafa misst af þessum gjörningi. Í henni situr nefnilega skynsamt og nútímalegt fólk sem ég hreinlega trúði ekki að myndi skrifa undir svona vitleysu. Það er virkilega gott að heyra að sú tilfinning mín var rétt. Annars er ég sammála mörgu því sem Stefán Bogi skrifar í þessum ágæta pistli sínum. En hann snýst líka í megindráttum ekki um það sem ég var svo hissa á að heyra formann SSA segja.

Um ritstjórnarstefnu SSA

Kæra fjölmiðlafólk,

Á bæjarstjórnarfundi í Fjarðabyggð í dag, þann 20. janúar 2011, áttu sér stað umræður um atvinnuleysi í fjórðungnum sem hefur, ásamt atvinnuleysi á landinu öllu, að sjálfsögðu komið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Valdimar O. Hermannsson, bæjarfulltrúi og formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA), upplýsti við þetta tilefni um samskipti sín við fjölmiðla það sem af er ári. Þau ykkar sem ekki hafið hitt hann, heyrt í honum eða fengið frá honum bréf síðustu daga – þetta hafði hann að segja:

„Það hefur verið óskað eftir því að fréttamaður RÚV hér á Austurlandi taki jákvæðara sjónarhorn á þær fréttir sem hann flytur, bæði af þessum málum og öðrum.”

„…[A]ð fréttamat þeirra [RÚV] væri með jákvæðari hætti og þeim var sendur langur listi um verkefni og málefni hér á Austurlandi sem væru fréttnæm.”

„…Nú þegar […] er verið að vinna úr ábendingum um þessa liði, bæði athugasemdum og ábendingum, um fréttaval á fréttastofunum.”

Ég er svo standandi bit á þessu öllu saman að ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja. En jæja.

Í fyrsta lagi er algjörlega út í hött að sveitarstjórnarmenn skipti sér á nokkurn hátt að sjónarhorni því sem fréttamaður velur, sama um hvað er fjallað. Sveitarstjórnarmaður er lýðræðislega kjörinn pólitíkus, ekki fréttastjóri.

Í öðru lagi er í besta falli hlægilegt að sveitarstjórnarmaður sendi fréttamönnum einhvers konar óskalista yfir þau málefni sem hann vill að fjallað sé um. Listann væri réttara að stíla á jólasveininn en fréttastofur. Vinsamlegast áframsendið listann því á rétt heimilisfang í Finnlandi.

Í þriðja lagi vona ég að þau ykkar sem hafið sagt Valdimari að nú sé unnið að úrvinnslu ábendinga og athugasemda frá honum séuð einfaldlega að ljúga, nema hreinar og klárar staðreyndavillur hafi leynst í einhverri fréttinni.

Óskir um jákvæðari fréttaflutning – hvað nákvæmlega sem það nú er – og óskalistinn áðurnefndi hefur ekki komið til umfjöllunar í bæjarráði eða bæjarstjórn Fjarðabyggðar og þ.a.l. ekki samþykktur þar. Valdimar hlýtur því að hafa gert þessar athugasemdir í nafni SSA. Hvort allir hinir stjórnarmenn sambandsins voru í kaffi, sofandi eða fannst þetta bara fínasta hugmynd veit ég ekki, en það þarf klárlega að skoða nánar.

Ég vil, þrátt fyrir að hafa ekki komið að þessum óverkum á nokkurn hátt, biðja ykkur afsökunar. Ég get fullyrt að það telja svo sannarlega ekki allir sveitarstjórnarmenn á Austurlandi sig vera í fullum rétti til að skipa ykkur fyrir verkum í vinnunni. Það gera yfirmenn ykkar væntanlega, eins og venja er á vinnustöðum. Mér heyrist flestir sveitarstjórnarmenn treysta ykkur alveg hreint ágætlega til ykkar starfa og ekki vera haldnir neinum ranghugmyndum um að þið eigið að vera klappstýrur eða ímyndarsmiðir þess svæðis sem þið starfið á.

Eitt að lokum, kæra fjölmiðlafólk. Hvað varðar stjórnarmenn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi: Fyrirgefið þeim, því þeir vita ei hvað þeir gjöra.

Bestu kveðjur,
Esther Ösp Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúi Fjarðalistans í Fjarðabyggð