Select Page

Um kvennafundi og karlaklúbba

Ræða flutt á bæjarstjórnarfundi í Fjarðabyggð, 13. ágúst 2015. Á fundinum var 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna fagnað og hann sátu því aðeins kvenkyns bæjarfulltrúar.

 

Í dag sitjum við hér, í fyrsta skipti, bara konur sem kjörnir fulltrúar á bæjarstjórnarfundi í Fjarðabyggð.

Það er svolítið óhugnarlegt að hugsa til þess hvað í raun og veru er stutt síðan konur máttu ekki kjósa. Hundrað ár. Það er ekki langur tími, ekki margar kynslóðir. Þótt það hafi sem betur fer óskaplega margt gott gerst á þessum hundrað árum og ungt fólk í dag geri sér í raun og veru kannski ekki alltaf grein fyrir því, þá eru næg verkefni framundan líka.

Nú eru sveitarfélög skyldug til að gæta þess að hlutfall kvenna og karla í sveitarstjórnum og nefndum sé sem jafnast. Þótt það sé auðvitað ekki ákjósanlegast að ná fram breytingum með að þvinga þær fram með lagasetningum, þá segir sagan okkur að stundum sé það beinlínis nauðsynlegt. Sum vandamál lagast nefnilega ekki algjörlega af sjálfu sér. Ég segi vandamál vegna þess að það er engum hópi hollt að vera einsleitur og á sama hátt og við þurfum að tryggja að í nefndum og ráðum sitji fólk á öllum aldri, með fjölbreytilegan bakgrunn, sem býr vítt og breitt um sveitarfélagið, þá þurfum við líka að gæta þess að þar séu konur jafnt sem karlar.

Nú sit ég mitt annað kjörtímabil í þessari bæjarstjórn og nefndum bæjarins. Það gerir Eydís Ásbjörnsdóttir líka og það er í fyrsta sinn í sögu bæjarstjórnarinnar sem það gerist – þ.e. að kona sitji meira en eitt kjörtímabil. Ástæðurnar fyrir þessu úthaldsleysi, ef svo má kalla, eru sjálfsagt margar en nokkrar eru mjög augljósar. Þetta er talsvert áhyggjuefni og eitthvað sem við þurfum að skoða betur. Getum við gert eitthvað til að gera stafið í bæjarstjórn Fjarðabyggðar ákjósanlegra fyrir konur? Hvers vegna vilja þær ekki sitja annað kjörtímabil? Hér ættu að vera hæg heimatökin, því þær konur sem setið hafa í bæjarstjórn í Fjarðabyggð eru nánast í kallfæri. Ég skora á bæjarstjórann, sem leggur hér á eftir fram jafnréttisstefnu sveitarfélagsins, að beita sér fyrir því að þetta verði skoðað sérstaklega og athuga hvort við getum ekki gert eitthvað til að stuðla að því að konur geti hugsað sér áframahaldi þátttöku í pólitísku starfi í Fjarðabyggð.

Seta mín í bæjarstjórn Fjarðabyggðar hefur kennt mér mjög margt, svo ég sé nú dálítið á persónulegu nótunum líka. Þrátt fyrir að hafa aðallega unnið á vinnustöðum þar sem karlar eru í miklum meirihluta þá ég hef ekki kynnst samskonar „karlaklúbbi“ og bæjarstjórn og bæjarráði Fjarðabyggðar. Í minni hefðubundnu dagvinnu hefur t.d. aldrei neinn sagt „strákar“ við hóp sem ég sit í, þrátt fyrir að þar sé ég iðulega eina konan. Þar taka menn ekki ákvarðanir og þykjast svo vilja heyra hvort ég sé ekki örugglega sammála, því þar fæ ég að vera með í samtalinu sjálfu.  Ég hef heldur aldrei verið skömmuð eins og óþægur krakki í vinnunni ef ég hef aðra skoðun en vinnufélagarnir. Mér hefur alltaf þótt viðmótið sem ég fæ í vinnunni minni vera það sama og mætti mér ef ég væri miðaldra karl. Það segir auðvitað mikið um hvað ég vinn með vönduðu fólki en það segir mér líka að hér á bæ má bæta hlutina. Og það er alveg hægt að bæta þá – það er ekki einu neitt sérstaklega flókið – en „karlaklúbburinn“ þarf auðvitað að vilja það og leggja sig fram um það.

Nú hafa bæjarstjórnarfundir eins og þessir, þar sem einungis konur sitja fundinn, verið haldnir nokkrum stöðum á landinu í tilefni 100 ára kosningaréttar kvenna. Þetta er ein leið til að halda upp á þessi tímamót og ég lumaði ekki á neinni betri, þegar ég heyrði að svona fundur væri áætlaður í Fjarðabyggð. Ég varð hins vegar fyrir talsverðum vonbrigðum þegar mér barst fundarboðið og fyrir því eru tvær ástæður:

Í fyrsta lagi er þetta fyrsti fundur bæjarstjórnar eftir sumarfrí. Hér eru því engar fundargerðir til staðfestingar. Ekki ein. Þær eru allar til kynningar. Sem sagt, hér er verður ekki tekin alvöru umræða um eitt einasta mál í þessum fundargerðum og ekki kosið um þau heldur. Þetta þykir mér sorglega dæmigert. Nú hljóma ég kannski eins og reið og langþreytt eldri kona sem er búin að svekkja sig á stöðu kvenna í áratugi en ég er bara 31 árs. Samt er ég orðin svo þreytt á svona uppákomum. Hér er okkur konunum ekki treyst fyrir „alvöru bæjarstjórnarfundi“. Það var greinilega best að tímasetja hann þannig að við þyrftum helst ekki að hugsa neitt, mynda okkur neinar skoðanir, rökræða eða kjósa. Bara mæta, láta kynna fyrir okkur hvað hefur verið ákveðið, sitja stilltar á meðan og fara svo heim. Þetta er eitthvað svo grátlega dæmigert og auðvitað sérstaklega kaldhæðnislegt og dálítið ósmekklegt, að á fundinum þar sem við fögnum því að hafa mátt kjósa í 100 ár fáum við ekki að kjósa um neitt.

Eða, bíðum nú við. Jú! Hér eru heil fjögur almenn mál. Förum örstutt yfir hver þau eru (og þau eru sem sagt hin ástæðan fyrir því að ég varð fyrir vonbrigðum þegar ég las dagskrá þessa fundar).
1. mál á dagskrá er þetta sem ég tala nú undir. Umræður um stöðu kvenna í sveitarstjórnarmálum á Íslandi.
2. mál á dagskrá er jafnréttisstefna sveitarfélagsins.
3. mál er almennar umræður um þrjár bókarnir sem búið er að leggja fyrir fundinn. Sú fyrsta fjallar um samstarf vegna heimilisofbeldis, önnur um úttekt á kynjabundnum launamun hjá Fjarðabyggð og síðasta bókunin kemur frá okkur í Fjarðalistanum og fjallar um að efla hinsegin fræðslu í skólum Fjarðabyggðar.
4. og síðasta mál á dagskrá er reglur um gerð fjárhagsáætlunar.

Þetta eru auðvitað allt þörf og mikilvæg mál. Ekki misskilja mig, ég er afar ánægð með að sjá þau öll sömul hér inni í bæjarstjórn Fjarðabyggðar, en það sem veldur mér vonbrigðum er að þau séu öll tekin fyrir þessum fundi. Á fundi þar sem bara sitja konur. Af því að heimilisofbeldi, jafnrétti og kynjabundinn launamunur eru allt einkamál kvenna? Af því að það er algjörlega ástæðulaust að láta karlmenn koma að umræðu um þessi mál?

Þetta er hræðilega gamaldags hugsun sem ég hélt að væri að deyja út. Auðvitað eigum við að ræða þessi mál öll – ekki bara konur. Þetta eru ekki einkamál kvenna, þótt þau bitni að stærstum hluta á þeim. Það á ekki að láta karlmenn vera stikkfrí í þessari umræðu. Þeim er ekki sama. Þeir hafa ýmislegt til málanna að leggja og þeir bera ábyrgð á því, rétt eins og konur, að þetta breytist og lagist. Rétt eins og það er okkar allra, sama hvaða kynhneigðar við erum og hvort við erum í réttum líkama að passa upp á að allir sitji við sama borð og að öllum líði vel, eins og þeir eru. Það sama á auðvitað við um karla og konur.

Að endingu vil ég óska okkur öllum til hamingju með þessi tímamót, minna okkur á að það hefur gríðarlega margt áunnist á þessum hundrað árum en ekki síður að það er enn af nógu að taka.

 

Börn í blindhæðarússíbana, daglegar ferðir í boði

Stundum er gott að horfa á hlutina úr svolítilli fjarlægð og fá annað sjónarhorn en það sem blasir við þegar maður er sjálfur að garfast í hlutunum.

Í dag sat ég heima og horfði á bæjarstjórnarfund í Fjarðabyggð af því að ég komst ekki á hann sjálf.Fundurinn var óvenjulangur og strangur. Þar var aðallega tekist á um eitt mál; þá tillögu meirihlutans að loka hálfum grunnskólanum á Stöðvarfirði og keyra nemendur á Fáskrúðsfjörð.

Fyrir rúmum tveimur árum var gerð ýtarleg skýrsla um hagræðingu og mögulegar sameiningar í fræðslumálum í Fjarðabyggð. Svo virðist sem meirihlutinn hafi ekki lesið skýrsluna eða ákveðið að hunsa það sem í henni stendur en þar segir að þegar kynntar hafi verið hugmyndir um akstur grunnskólabarna yfir á Fáskrúðsfjörð hafi komið fram „mikil andstaða […] bæði vegna hættulegs vegar og einnig vegna þess að það hefði í för með sér að grunnskólahald yrði lagt af á Stöðvarfirði.“

Það er einmitt þessi hættulegi vegur, einn sá allra hættulegasti á landinu samkvæmt óháðum úttektum, sem bæjarfulltrúar í öllum flokkum kvarta sáran yfir. Eðlilega, hann er skelfilegur. Mjór og hlykkjóttur blindhæðarússíbani. En svo vill meirihluti þessara sömu bæjarfulltrúa láta grunnskólakrakka rúnta hann á hverjum einasta virka degi, allan veturinn.

Þetta eru líka sömu bæjarfulltrúar og skammast reglulega í alþingis- og embættismönnum, stofnunum og fyrirtækjum yfir því að þjónusta á landsbyggðinni sé sífellt skert. Ef það er ekki verið að loka bankaútibúinu, þá er verið að minnka viðveru lækna eða fækka lögreglumönnum. Svo snúa þeir sér í hálfhring og gera nákvæmlega það sama og þeir kvarta sjálfir yfir. Trúverðugt.

Meirihlutinn, þessi sem samdi sín á milli um menn og málefni eftir kosningarnar í vor, kvartar nú sáran undan því að minnihlutinn finni að þessari tillögu. Reyndar kvartar hann ekki yfir því beint, heldur talar um „karp“ og „ósamstöðu“, því minnihlutinn eigi ekki að vera með þessi leiðindi, heldur koma með lausnir. Þetta er sami meirihlutinn og sleppir því alveg að spyrja minnihlutann hvað honum finnst nema svona stöku sinnum, þegar honum hentar. Stundum sleppir hann því meira að segja að upplýsa minnihlutann, hvað þá spyrja hann. Svo skilur meirihlutinn ekkert í því að það séu ekki allir ýkt hressir næst þegar á minnihlutanum þarf að halda. Ef meirihlutinn vill „þjóðstjórn“ í bæjarstjórn Fjarðabyggðar, sem mér hefur reyndar alltaf þótt ljómandi góð hugmynd, þá á hann auðvitað að reyna að mynda hana. En þá þýðir ekki að semja bara við suma.

Samningar virðast svo sem ekki vera sérstaklega sterk hlið hjá þessum meirihluta. Þeir gerðu samninga við kjósendur. Annar flokkurinn sagði skólana vera „hjarta samfélagsins“ og að „áfram [þyrfti] að standa vörð um skólastarf í sveitarfélaginu“. Hinn vildi „tryggja skólastofnunum sveitarfélagsins fjármagn til að halda áfram uppbyggingu á metnaðarfullu og öflugu skólastarfi“. En svo veiddist engin loðna og þá þarf auðvitað að loka skólanum á Stöðvarfirði. Það gefur auga leið.

Nú er meirihlutinn í vandræðum. Það vantar 70 milljónir upp á að hægt sé að klára fjárhagsáætlun fyrir fræðslumálin. Miðað við hversu fá svör fengust við spurningum minnihlutans í dag má búast við ansi mörgum andvökunóttum hjá meirihlutanum því hugmyndina á að útfæra fyrir seinni umræðu um fjárhagsáætlun. Hún er eftir mánuð. Fjórar vikur. Hviss, bamm, búmm.

Fyrir þessari furðulegu hugmynd, sem ekki er búið að útfæra, talar meirihlutinn. Talar og talar. Talar yfir fullum sal af fólki, aldrei þessu vant. Talar yfir Stöðfirðingum sem mættu til að mótmæla. Og það er ekki bara meirihlutinn sem talar, heldur líka ópólitíski bæjarstjórinn okkar, enda sendi meirihlutinn hann ásamt embættismanni til að ræða við Stöðfirðinga fyrr í vikunni. Það er nefnilega þannig að ef maður er með vonda hugmynd sem mun leggjast illa í fólk er miklu þægilegra að finna sendiboða. Það er ekki nærri eins mikið bögg. Þá þarf maður ekkert að horfa framan í foreldrana sem munu sitja með krosslagða putta og tær í vinnunni á meðan litla skólarútan mætir risastórum flutningabíl í hálku á einni blindhæðinni á Suðurfjarðavegi. Þá er nú miklu betra að hella sér upp á kaffibolla á tékka á dómunum um jólabækurnar í Kiljunni.

Og þar sem ég sat heima í stofu og fylgdist grannt með fundinum, skildi ég þetta betur en nokkru sinni fyrr.

Er skrýtið að fólk á Íslandi nenni ekki pólitík lengur? Er nema von að fólk telji tímanum betur varið á kaffihúsi eða á Facebook en á kjörstað?

Þetta er nú, allavega á dögum eins og í dag, meira bévítans ruglið.

 


 

1 Ég er í barneignarleyfi. Já, einmitt. Barnið er vissulega 11 mánaða gamalt en þar sem við hjónin höfum ekki efni á því að taka okkur launalaust leyfi til að vera heima með barninu okkar, því hér á Reyðarfirði er enga dagforeldra að finna, verðum við að koma sitthvorum vinnudeginum fyrir í einum sólarhring og skiptast á að vera heima með barnið. Afskaplega gott kerfi sem við höfum hér á landi, þar sem ríki og sveitarfélög virðast ekki tala alltof mikið saman og enginn veit hvernig á að leysa þessa þrjá mánuði frá því að fæðingarorlofsrétturinn klárast og þar til barn kemst að á leikskóla. En það er efni í önnur skrif.

Lyst á Reyðarfirði

Í gær sat ég hjá við atkvæðagreiðslu í bæjarstjórn. Það gerist ekki oft. Ég gat bara ekki samþykkt bókunina sem var borin upp, nýkomin úr berjamó í Norðfirði.

Sko.

 


 

Árið sem Andri Snær skrifaði Draumalandið var ég að læra fjölmiðlafræði í Háskóla Íslands. Eitt af því fyrsta sem við lærðum var að flestir hafa ríka tilhneigingu til að lesa að mestu skrif sem endurspegla eigin skoðanir. Ég man að mér fannst þetta stórundarlegt. Hvernig átti einhver að geta myndað sér skoðun og haldið áfram að vera þeirra skoðunar, ef hann ætlaði aldrei að lesa neitt nema það sem hann var sammála? Þannig að ég keypti og las Draumalandið. Þar var auðvitað að finna fullt af mjög þörfum og réttmætum ábendingum og bókin vakti mig til umhugsunar um ýmislegt – sumt hugsa ég ennþá um reglulega. Eftir lesturinn var ég engu að síður enn ósammála Andra Snæ um hvort álver í Reyðarfirði ætti rétt á sér eða ekki. Reyndar var ég svo ósammála honum um ákveðin atriði að ég stóð upp í pökkuðum sal í háskólanum og skiptist á skoðunum við hann í góða stund.

Ég var sem sagt aldrei neitt vafaatkvæði þegar kom að spurningunni um álver eða ekki álver í Reyðarfirði.

 


 

Hér í Reyðarfirði hefur styrkur flúors í grasi mælst um eða yfir viðmiðunarmörkum þrjú sumur í röð. Álver Alcoa losar of mikið flúor og það sem er enn verra, þar á bæ vita menn ekki hvernig flúorið sleppur út og þ.a.l. ekki hvernig á að bregðast við. Eftir því sem fulltrúar Alcoa segja okkur hafa þeir ekki setið auðum höndum, heldur ráðist í allskyns tilraunir og endurbætur, kallað til erlendan sérfræðing og fleira. Niðurstaðan er eftir sem áður sú sama: Ekki er vitað hvernig á að leysa vandamálið.

Fyrir rúmri viku fundaði eigna-, skipulags- og umhverfisnefnd Fjarðabyggðar. Ég sit í nefndinni en var ekki heima og gat því ekki setið fundinn. Af því að ég hafði áður óskað eftir að fulltrúar þeirra eftirlitsstofnana sem hafa með málið að gera kæmu á fundinn, fékk ég að vera í síma undir þeim lið, bæði til að hlusta á hvað fulltrúarnir hefðu að segja og spyrja þá spurninga. Að því loknu lauk þátttöku minni á fundinum og ég verð að viðurkenna að ég varð fyrir ákveðnum vonbrigðum þegar ég sá bókun nefndarinnar um málið daginn eftir.

Í gær hittist bæjarstjórn eftir sumarfrí og þar var bókun nefndarinnar borin upp. Við hana bætti bæjarstjórn síðan nokkrum orðum. Þar eru löngu tímabærir og jákvæðir punktar, s.s. um að sett verði upp upplýsingatorg á vefsíðu Fjarðabyggðar um málið og að haldinn verði kynningarfundur í byrjun september með fulltrúum eftirlitsaðila. Þetta er auðvitað fagnaðarefni en á nokkrum stöðum finnst mér of lítið gert úr því að hér í Reyðarfirði sé mengunin meiri en áætlað var. Mér finnst t.d. furðulegt að nota orðalag eins og „að nauðsynjalausu” um áhyggjur íbúa af heilsufarslegu öryggi. Auðvitað eiga íbúar að hafa áhyggjur og þær eru ekki að nauðsynjalausu. Við búum hér við meiri mengun en okkur var lofað og þessi mengun hefur áhrif.

Sérfræðingar Umhverfisstofnunar (UST) og Matvælastofnunar (MAST) segja okkur að flúormengunin eigi ekki að vera hættuleg heilsu manna. Þetta eru menntaðir sérfræðingar sem við höfum auðvitað enga ástæðu til að rengja. Á sama tíma segja þeir okkur samt að það sé vissara að skola berin sem við tínum í fjallinu og rabarbarann sem við slítum upp úr garðinum. Það er ekki nema von að fólk hafi áhyggjur og finnist þetta stangast dálítið á.

En eru þær fullyrðingar að flúormengunin sé ekki hættuleg fólki það eina sem skiptir okkur máli? Er eftirsóknarvert að kaupa sér hús og setjast að á stað þar sem megun er meiri en hún ætti að vera? Getur fólk verið fullkomlega ánægt með umhverfi sitt? Hvaða áhrif hefur mengunin á ímynd Reyðarfjarðar og Fjarðabyggðar?

Ef áfram heldur sem horfir er full ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af grasbítum hér í Reyðarfirði, því síðustu mælingar flúors í beinum þeirra voru rétt undir hættumörkum. Á nefndarfundinum spurði ég fulltrúa UST og MAST um hverjar afleiðingarnar yrðu ef flúor safnaðist áfram upp í beinum dýranna sem bíta grasið í firðinum. Svörin voru þau að breyta þyrfti landnotkun í Reyðarfirði, þ.e. hér gætu menn ekki stundað búskap lengur því menn mættu einfaldlega ekki halda dýr sem vitað væri að lifðu við þessar aðstæður. Yrði það ásættanlegt?

Okkur er reglulega sagt að Alcoa Fjarðaál sé eitt fullkomnasta og tæknilegasta álver í heimi. Fyrirtækið eyðir líka (a.m.k.) tugum milljóna í samfélagsstyrki á ári hverju, almannatengsl, auglýsingar og aðra ímyndavinnu. Það hlýtur því hreinlega að hafa fjármagn og úrræði til að finna út úr þessu.

 


 

Ég er enn sömu skoðunar og ég var árið sem Draumalandið var skrifað.

Heilt yfir held ég að það hafi verið rétt ákvörðun að reisa álver í Reyðarfirði. Álvinnsla er ekki gallalaus iðnaður frekar en nokkur annar og Alcoa Fjarðaál ekki fullkominn vinnustaður heldur, en kostirnir eru bæði miklir og margvíslegir. Það breytir því ekki að við verðum að gera þær sjálfsögðu kröfur til Alcoa, rétt eins og allra annarra fyrirtækja í sveitarfélaginu, að það hafi sem allra minnst skaðleg áhrif á umhverfi, dýr og menn. Af þeim kröfum mál aldrei slá.

Ég treysti því líka að berin í Reyðarfirði séu mér ekki skaðleg. Samt er mér sagt að skola þau helst og þá hef ég bara ekki alveg eins góða lyst á þeim. Viljum við ekki örugglega að fólk hafi lyst á Reyðarfirði áfram?

 

Fjarðabyggð: Á góðum stað?

Sveitarfélagið Fjarðabyggð í núverandi mynd er ekki nema tæplega 7 ára gamalt og þótt formlegheitunum við sameininguna sé lokið er mikið verk óunnið við að raunverulega sameina íbúana. Á tyllidögum tala bæjarfulltrúar um mikilvægi þessarar vinnu, slá um sig með frösum eins og þörfinni fyrir að „skapa félagslega heild“ og „ljúka hinu eiginlega sameiningarferli“. Það skýtur því óneitanlega skökku við að horfa upp á þessa sömu bæjarfulltrúa samþykkja að mismuna íbúunum vísvitandi eftir því hvar í Fjarðabyggð þeir búa.

Í vikunni sem leið samþykkti meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks nýja gjaldskrá fyrir almenningssamgöngur í Fjarðabyggð, þrátt fyrir kröftug mótmæli okkar bæjarfulltrúa Fjarðalistans. Hingað til hafa allir íbúar sveitarfélagsins greitt sama gjaldið fyrir að nota strætó innan Fjarðabyggðar, óháð því hvaðan þeir koma og hvert þeir eru að fara. Með nýju gjaldskránni er þessi jöfnuður hins vegar liðin tíð og sveitarfélaginu skipt upp í gjaldsvæði sem hvert um sig er 15 km langt. Stysta leiðin innan Fjarðabyggðar er einmitt 15 km en sú lengsta 85 km og því kemur það til með að kosta Stöðfirðinginn sexfalt meira að skreppa á Norðfjörð en Eskfirðinginn að skjótast á Reyðarfjörð – sexfalt meira, en allir borga þeir þó sama útsvar til sveitarfélagsins.

Íbúum Fjarðabyggðar var á sínum tíma seld sameiningarhugmyndin m.a. með þeim rökum að mikil hagræðing hlytist af, atvinnutækifærum fjölgaði og þjónustustig yrði hærra,  íbúunum öllum til góða.  Á undanförnum áratug hefur helsta atvinnu- og þjónustusvæði Fjarðabyggðar byggst upp í miðju sveitarfélagsins, á Reyðarfirði og í kringum álverið. Um þessa þróun er hæpið að ætla að skapist sátt ef sveitarfélagið ætlar svo að rukka íbúa jaðarins meira fyrir að sækja vinnu eða þjónustu inn að miðju.

Á sama tíma og fulltrúar meirihlutans samþykkja að mismuna íbúum sínum á þennan hátt kvabba þeir í ríkisvaldinu og krefja þingmenn um svör við því hvers vegna íbúar landsbyggðarinnar njóti ekki  réttinda og þjónustu til jafns við höfuðborgarsvæðið. Þeir nota ekki þau fáu tækifæri sem þeir fá sjálfir til að setja slík fordæmi.

Þetta jafnréttismál höfum við sem sagt tekist á um undanfarnar vikur, meiri- og minnihluti í Fjarðabyggð. Við í Fjarðalistanum höfum bókað þá afstöðu okkar í öllum nefndum og ráðum bæjarins að íbúarnir eigi allir að sitja við sama borð þegar kemur að gjaldi í strætó og hvikum hvergi frá þeirri skoðun. Það er okkur illskiljanlegt að meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks vilji velta þessum kostnaði yfir á íbúana og mismuna þannig fólki í sameinuðu, fjölkjarna sveitarfélagi eftir því hvar það býr. Erum við annars ekki að reyna að telja fólki trú um að „það sé á góðum stað“ í Fjarðabyggð, eins og segir á heimsíðu sveitarfélagsins? Eða er góði staðurinn kannski bara í miðjunni?

Litla, ljóta gatið til Norðfjarðar

Ég vel að búa úti á landi. Það er ekki sjálfgefið að velja landsbyggðina, því þar er ekki alltaf einfaldast að búa, en að teknu tilliti til bæði kosta og galla höfuðborgarsvæðisins annars vegar og landsbyggðarinnar hins vegar, vel ég landsbyggðina. Ekki spurning.

Þegar maður býr á landsbyggðinni neyðist maður stundum til að fara til Reykjavíkur, eða bara suður – eins og við segjum hérna fyrir austan. Einn af ókostunum við höfuðborgarsvæðið, og sá sem ég læt líklega fara mest í taugarnar á mér af öllum, er umferðin. Maður þarf ekki að ferðast mikið eða lengi um heiminn til að komast að því hversu óskaplega tillitslausir og frekir bílstjórar í ekki stærri borg en Reykjavík eru. Í Delhi á Indlandi, þar sem ógrynni bíla, mótorhjóla, búfénaðar og reiðhjóla mætast á óupplýstum krossgötum, gengur allt smurt. Allir fara gætilega, taka tillit til annarra, gefa séns og komast leiðar sinnar. Engin vandræði. Í útjarðri Reykjavíkur má hins vegar ekki blikka gult ljós á fáförnum gatnamótum án þess að bílstjórarnir sem að þeim koma fórni höndum og byrji að svitna á efri vörinni.

Ég keyri mikið um nágrannasveitir mínar og kem reglulega að einbreiðum brúm. Margar hverjar eru sæmilegar – eða eins sæmilegar og einbreiðar brýr verða – en aðrar með ýmsum skemmtilegum viðbótarhættum, t.d. blindhæð eða krappri beygju á undan og/eða á eftir. Þar þarf því að fara gætilega. Og það gerir fólk. Það hægir vel ferðina, gætir þess að enginn sé að koma á móti (svo langt sem það sér), fer út í kant og bíður, ef þarf. Ekki er nóg með að fólk sýni náunganum tillitssemi, heldur vinkar sá sem keyrir fyrstur yfir brúna þeim sem bíður úti í kanti nánast undantekningalaust, þakkar fyrir aðgátina. Þetta er dálítið vinalegt og sjarmerandi og þegar einhver stofnar lífi mínu í hættu að óþörfu á Miklubrautinni með því að svína fyrir mig í hálku, þá hugsa ég um vinkandi bílstjóra við einbreiða brú og anda djúpt.

– – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – –

Maðurinn minn er dagskrárgerðarmaður og á sunnudögum í júlí og ágúst hafa hljómað þættir eftir hann á Rás 1 um byggðarkjarnanna sex í Fjarðabyggð. Í þættinum um Norðfjörð talaði hann m.a. við Ingibjörgu Þórðardóttur, kennara og Norðfirðing í húð og hár. Nú er ég stundum alveg hjartanlega sammála Ingibjörgu um ýmis málefni en þegar hún byrjaði að tala um samgöngur til Norðfjarðar var ég sannfærð um að ég hefði misskilið hana hrapallega. Sagði hún í alvörunni að hún hefði „aldrei litið á erfiðar samgöngur sem neikvæðar“ og væri „ekkert sérstök áhugamanneskja um göng“? Bíddu, býr hún ekki á Norðfirði? Jú, jú. Hún sagði að sér þætti Oddsskarðið „ekkert mál“ og þætti bara „æðislega gaman að keyra yfir Oddsskarð“.

Ég var svo standandi bit á þessum ummælum að ég fór inn á ruv.is, hlustaði aftur á það sem hún sagði og skrifaði niður, því samgöngur finnst mér einn aðalókosturinn við að búa á landsbyggðinni. En áfram hélt Ingibjörg:

Þrátt fyrir að nútímakröfur segi að þetta eigi allt að snúast um þetta, þá held ég að við verðum kannski að hafa svolítið hugfast að það gæti verið að við töpuðum einhverju líka eftir því sem samgöngur verða betri. Við vinnum ekkert bara. Auðvitað vinnum helling. Við vinnum helling fyrir skólann okkar, við vinnum helling fyrir sjúkrahúsið okkar og allt það. En við getum líka tapað einhverju.

Við þetta er gott að staldra og velta fyrir sér inntakinu. Nú er það svo að margir hér í sveitarfélaginu og nágrenni þess hafa á því miklar skoðanir að tvær lykilstofnanir fjórðungsins séu staðsettar á Norðfirði, einmitt vegna þess að þangað er ótrygg leið. Þetta eru Verkmenntaskóli Austurlands (sá eini sinnar tegundar í fjórðungnum) og Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað. „Skólinn okkar“ og „sjúkrahúsið okkar“ sem Ingibjörg talar um, er nefnilega ekki bara skóli Norðfirðinga eða sjúkrahús Norðfirðinga, heldur eru þetta stofnanir Austfirðinga allra. Þeir sem eiga heima á Djúpavogi, Vopnafirði og Jökuldal eiga jafnmikið tilkall til skólans og sjúkrahússins og Norðfirðingar. Bara svo það sé á hreinu. Til þess að Austfirðingar allir geti nýtt sér þessar stofnanir meira og betur en þeir gera núna, þurfa að vera þangað betri samgöngur. Það er kristaltært. Það mun svo örugglega fylgja með í mikilvægan bónus, þegar samgöngurnar verða orðnar betri, að meiri sátt mun skapast um staðsetningu þessara stofnana. Það skiptir líka máli, ekki síst fyrir Norðfirðinga.

Það er ekki bara það að við vinnum og vinnum við það að samgöngur batni. Við kannski bara töpum líka. Fólk sækir vinnu meira kannski annars staðar. Er það endilega það sem við viljum? Viljum við endilega að Norðfirðingar vinni meira og minna allir á Reyðarfirði? Ég vil það ekki. Ég vil helst að Norðfirðingar vinni bara á Norðfirði.“

Ég vil helst að fólk fái bara að velja, eins mikið og það mögulega getur, hvar það vinnur, Ingibjörg. Ef við ætlum halda okkur fast við þá skoðun að fólk eigi bara að vinna þar sem það býr, þá væri ástæðulaust að eyða stórfé í stórar stofnbrautir á milli hverfa á höfuðborgarsvæðinu, því þú ætlast þá líka væntanlega til þess að þeir sem búa í Grafarvoginum vinni í Grafarvoginum. Gildir þá einu hvort þar er að finna starf þar sem menntun og reynsla viðkomandi nýtist eða ekki.

Spurð um framtíðarsýn sína fyrir Norðfjörð, segir Ingibjörg: „Ég vil bara auðvitað sjá að hér sé áfram líf og hér sé fólk helst af öllum kynslóðum.

Nú hélt ég að það væru engin ný vísindi að eitt þeirra atriða sem margt fólk raðar ofarlega á óskalistann sinn, áður en það tekur ákvörðun um búsetu, er samgöngur. Til þess að Norðfjörður endurheimti Norðfirðingana sína að loknu námi og laði til sín nýja íbúa, þá þarf að vera hægt að komast þangað svo vel sé. Annars kemur ekki til með að vera fólk af öllum kynslóðum á Norðfirði. En um ný göng hefur Ingibjörg reyndar meira að segja:

Það er ekki bara það að það verði auðveldara að koma hingað, það verður líka auðveldara að fara héðan.

Er þetta nú ekki feikileg og ástæðulaus paranoja? Er virkilega svo slæmt að búa á Norðfirði, að um leið og þaðan verði greiðfært, sjái allir íbúarnir hversu grænt grasið er raunverulega hinum megin og pakki saman? Bíður fólk á Norðfirði kannski nú þegar í röðum með búslóðirnar sínar við væntanlegan gangamunann í Fannardalnum?

Nú, þetta var fyrir tveimur vikum. Ég byrjaði sumsé að skrifa um samgöngur til Norðfjarðar þá en kom mér einhverra hluta vegna ekki til að klára. Síðan þá hefur ýmislegt gerst.

Allt sat fast í Oddsskarðsgöngum þegar gestir Neistaflugs ætluðu heim að lokinni dagskrá.
Það er kannski þetta sem Ingibjörg á við með því að það verði auðveldara að fara frá Norðfirði þegar ný göng verða komin? En það er víst ekki gott. Á mögulega að læsa alla inni sem álpast á Neistaflug?

Íbúar efndu til samstöðufundar við göngin í gærkvöldi.

Af báðum þessum atburðum voru fluttar fréttir, eins og sjá má hér að ofan, og það í fleiri miðlum en RÚV. Í framhaldi af þessari umfjöllun skrifaði Ingibjörg þetta á vegg sinn á Facebook í dag:

Norðfirðingar eru ekkert að hvetja fólk til heimsækja fjörðinn okkar. Efast um að nokkur þori að láta sjá sig hér. Eins gott að þessi áróður gegn firðinum hófst eftir Eistnaflug og Neistaflug.

Þá gekk endanlega fram af mér og ég opnaði óklárað skjal í tölvunni um samgöngur til Norðfjarðar. Mér er algjörlega fyrirmunað að skilja hvernig hægt er að túlka það áróður gegn Norðfirði, að Norðfirðingar sjálfir og sveitungar þeirra, bendi enn einu sinni á þá augljósu staðreynd að til Norðfjarðar liggur erfiður, torfarinn og oft á tíðum hættulegur fjallvegur, sem ríkið á að sjá sóma sinn í að bæta (þótt fyrr hefði verið).

Ég heyri sveitarstjórnarmenn og íbúa á Austurlandi reglulega kvarta undan því að fjölmiðlar sinni þeim ekki nógu vel. Það er mikið til í því og í raun efni í önnur og lengri skrif. Það sem af er ári hafa Oddsskarðsgöng fengið töluvert meiri umfjöllun en ég man eftir áður, stundum að frumkvæði íbúa eða vegfarenda og stundum að frumkvæði pólitíkusa. Sama hvaðan gott kemur, umfjöllunin er þörf og það veitir ekkert af því að minna á þetta litla, ljóta gat ef eitthvað á að þokast í baráttunni fyrir stærra og betra gati yfir á Norðfjörð. Samgöngur til Norðfjarðar eru nefnilega ekki einkamál Norðfirðinga, eins og mér heyrist Ingibjörg halda. Að leiðin yfir á Norðfjörð sé greið skiptir sveitarfélagið Fjarðabyggð máli, nágranna sveitarfélögin, Austfirðinga alla, ferðamenn og gesti – hvaðan sem þeir koma og svo þeir komist heim aftur.

– – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – –

Aftur að einbreiðu brúnum úti á landi.

Mér varð hugsað til þess, þar sem ég stöðvaði bílinn við annan enda einbreiðu brúarinnar í botni Reyðarfjarðar í síðustu viku, hvaðan hugmyndir og skoðanir eins og þær sem vitnað er til hér að ofan eru eiginlega komnar. Því er ekki að neita, að það er vinalegt og svolítið fallegt að sjá hversu mikið fólk tekur tillit til náungans í nágrenni brúa sem þessarar – og kannski mun ég tala um það með rómantískri fortíðarþrá eftir einhverja áratugi þegar þær verða horfnar – en tillitssemin er líka það eina góða við einbreiðar brýr. Þær eru úreltar og hættulegar. Það eru Oddsskarðsgöng líka.

SSA – 2. kafli

Svo því sé strax svarað sem einhverjir eru sjálfsagt að velta fyrir sér, þá hef ég hugsað mér að skoða það sem kemur frá SSA á meðan ég er sitjandi bæjarfulltrúi á Austurlandi. Einhver verður að gera það, er það ekki?

Apríl er bara rétt að byrja og forsvarsmenn SSA hafa, í annað skiptið það sem af er ári, komið mér hressilega á óvart og það ekkert sérstaklega skemmtilega. Reyndar er nú orðinn rúmur mánuður síðan mér var bent á það sem hér er til umfjöllunar og þrátt fyrir að hafa lesið þetta margoft, hugsað töluvert um þetta og ætlað að skrifa um í nokkrar vikur, þá hef ég komið mér í það fyrr en núna, vegna þess að – ótrúlegt en satt – ég vissi ekki hvað er eiginlega hægt að segja um þetta allt saman.

Þann 25. febrúar sendi framkvæmdastjóri SSA, Björn Hafþór Guðmundsson, inn umsögn fyrir hönd stjórnar SSA um þingsályktunartillögu Árna Johnsen. Gögnin eru fljótlesin og aðgengileg á netinu. Þegar ég las þau fyrst var ég var svo hissa á málinu, sama á hvernig ég horfði á það, að ég gat hreinlega ekki komið því í orð. Staðan hefur nánast ekkert breyst og því vil ég biðja þau ykkar sem þetta lesa að gera eins og ég, þ.e. rembast við að svara þessum spurningum:

1) Er gott og eðlilegt að framkvæmdastjóri SSA skrifi „spontant“ umsögn (eins og hann orðar það sjálfur) um þingmál?

2) Er gott og eðlilegt að framkvæmdastjóri SSA semji umsögnina í nafni stjórnar SSA án þess að leita eftir samþykki stjórnarmanna?

3) Er gott og eðlilegt að framkvæmdastjóri SSA sendi stjórnamönnum umsögnina eftir að hún hefur verið send þinginu?

4) Er gott og eðlilegt að framkvæmdastjóri SSA telji ýmist stutt viðbrögð stjórnarmanna í tölvupósti eða alls engin viðbrögð (eftir að umsögnin hafði borist þinginu) fullnægjandi umræða þegar skrifað er í nafni stjórnar SSA?

5) Er gott og eðlilegt að framkvæmdastjóri SSA semji, einn síns liðs, umsögn um mál sem engin umræða hefur farið fram um í bæjarstjórnum eða fjölmiðlum á Austurlandi?

6) Hefði framkvæmdastjóri SSA ekki getað hinkrað í heila þrjá daga með að senda umsögnina inn til þingsins (en þá hefðu enn verið tvær vikur í að fresturinn rynni út) og þannig náð að bera hana undir stjórnarfund SSA?

7) Er gott og eðlilegt að umsögnin komi hvergi fram í fundargerðum stjórnar SSA?

Um umsögnina sjálfa; innihald hennar, efnistök og stílbrögð má svo segja óskaplega margt. En það er efni í önnur og miklu, miklu lengri skrif.

Svör óskast.